Framkvæmdir við fyrri áfanga uppbyggingar á  nýju hverfi á Húsavík eru komnar nokkuð á veg en áætlað er að hverfið verði byggt upp í tveimur áföngum.

Áætlað er að 22 íbúðir verði komnar í gagnið í lok nóvember, en Bergur Elías Ágústsson, fulltrúi leigufélags PCC, segir íbúðirnar vera í 11 parhúsum, að því er fram kemur í frétt RÚV .

„Og það er byrjað á gatnagerð og undirbúningi og við stefnum að því að það verði byrjað að reisa þar í apríl,” segir Bergur en tuttugu íbúðir til viðbótar gætu risið á svæðinu, en íbúðirnar eru ætlaðar fyrir starfsmenn PCC á Bakka.

„Það hefur forgang, að sjálfsögðu, en svo verðum við bara að sjá hvað gerist þegar tíminn líður.” Þegar starfsemi fyrirtækisins verður komið á fullt verða 111 manns þar í fullri vinnu, en alls um 200 í afleiddum störfum.