Byggingafélag námsmanna mun byggja 250 – 300 íbúðir fyrir félagsmenn sína á næstu árum. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, Salome Guðmundsdóttir, formaður stjórnar Byggingafélags námsmanna og Böðvar Jónsson, framkvæmdastjóri félagsins skrifuðu í dag undir viljayfirlýsingu þessa efnis. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Stefnt er að því að byggja íbúðirnar á fjórum mismunandi svæðum; Á reit KHÍ  við Stakkahlíð, Bryggjuhverfi 3, einnig mun Reykjavíkurborg láta kanna hvort mögulegt er að nýta betur og fjölga íbúðum á lóðum Byggingarfélags námsmanna við Klausturstíg 1-11, Kapellustíg 1-13 og Kristnibraut 91-93. Að lokum þá lýsa Reykjavíkurborg og Byggingafélag námsmanna yfir vilja til að efna til viðræðna við ríkissjóð um að fá afnot af hluta af lóð Sjómannaskólans við Háteigsveg 35-39 og að endurskoða fyrirliggjandi deiliskipulag á lóð félagsins að Háteigsvegi 31-33 til reisa þar um 50 námsmannaíbúðir.

Byggingafélagið leigir í dag út tæplega 500 íbúðir til námsmanna á höfuðborgarsvæðinu og áætlar að byggja um 300 íbúðir til viðbótar á næstu 5-8 árum.