Áætlað er að byggja turn sem er hærri en Burj Khalifa í Dubai. Það er fyrirtækið Emaar Properties sem ætlar að byggja turninn, en sagt er að ætla megi að hæð hans verði „einhverju hærri” en Burj Khalifa, hæsta bygging heims - en hún er 828 metra há.

Turninn mun kosta um einn milljarð Bandaríkjadala í byggingu, eða um 122 milljarða íslenskra króna. Búist er við því að mannvirkið verði tilbúið fyrir árið 2020. Innifalin í turninum verða íbúðir, hótel og garður á toppnum.

Hönnun byggingarinnar kemur frá spænsk-svissneska arkítektnum Santiago Calatrava Valls. Hönnunin er slík að stór spíra myndar meginturninn, en kaplar binda það við jörðina og viðhalda jafnvægi turnsins.

Emaar byggði þá einnig Burj Khalifa, og mun því eiga tvær gríðarháar byggingar í Dubai - en áætlað er þó að Konungsturninn í Jeddah muni rísa um 2020-leitið, sem á þó að vera eins kílómetra hár - svo ólíklegt er að nýr turn Emaar muni halda titli sínum lengi.