Fyrsta skóflustunga að nýju Hlíðarhverfi í Grindavíkurbæ var tekin í síðustu viku, auk þess sem verksamningur á milli sveitarfélagsins og verktakans Jóns & Margeirs var undirritaðar. Það var Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkurbæjar, tók fyrstu skóflustunguna. Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Undanfarin misseri hefur orðið mikil uppbygging í Grindavík og íbúum fjölgað jafnt og þétt. Fjöldi íbúða er í byggingu og lóðaframboð var orðið takmarkað. Með hinu nýja hverfi bjóðast lóðir fyrir fjölbreytt íbúðaform, allt frá einbýlishúsum til fjölbýlishúsa. Grindavíkurbær er öflugt og fjölskylduvænt bæjarfélag. Samkvæmt könnunum ríkir mikil ánægja meðal íbúa með búsetu í bænum og hamingjan mælist óvíða meiri. Náttúran er mikilfengleg, mannlífið gott og allir boðnir velkomnir til okkar sem gestir eða til fastrar búsetu, " segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkurbæjar í tilkynningu.

Auk bæjarstjóra og verktakans Jóns & Margeirs voru viðstaddir bæjarfulltrúarnir Hjálmar Hallgrímsson, formaður bæjarráðs; Sigurður Óli Þórleifsson, forseti bæjarstjórnar; Páll Valur Björnsson, Hallfríður Hólmgrímsdóttir og sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs Atli Geir Júlíusson.

Framkvæmdin er nú hafin og byrjað hefur verið að grafa upp svæðið. Fyrsti áfangi verksins er gatnagerð og eru verklok áætluð 15. nóvember þessa árs.

Grindavíkurbær kynnti síðastliðið haust tillögu að nýju deiliskipulagi norðan við Hópsbraut en í Hlíðarhverfi er gert ráð fyrir að fjöldi íbúðareininga verði allt að 384 og að þar verði byggður upp nýr leikskóli. Þar að auki er skilgreind sérstök lóð fyrir hverfisverslun eða aðra þjónustu, auk þess sem gert hefur verið ráð fyrir öruggum umferðarleiðum fyrir akandi, hjólandi og gangandi vegfarendur.

Í fyrsta áfanga er gert ráð fyrir 76 lóðum með á bilinu 160 til 180 íbúðaeiningum, þar af 12 einbýlishúsalóðir, 12 parhúsalóðir, 47 raðhúsalóðir og 5 fjölbýlishúsalóðir.