Grænlendingar eru nú að undirbúa byggingu fjórða vatnsorkuversins í landinu við bæinn Ilulissat.

Nafnið merkir Ísfjallið en Danir kölluðu staðinn Jakobshavn. Þetta er þriðja stærsta byggðarlagið á Grænlandi með um 4.500 íbúa.

Væntanlega verða fjórir verktakahópar valdir til að gera tilboð í verkið í forvali. Talið er víst að tvö íslensk verktakafyrirtæki muni keppast um að komast þar að, þ.e. Ístak og ÍAV.

Fyrsta vatnsorkuver Grænlendinga var byggt árið 1993 og sér það höfuðstaðnum Nuuk fyrir rafmagni. Orkuverið var stækkað með nýrri aflvél á síðasta ári og er nú 45 megavött.

Verktakafyrirtækið Ístak er nú komið vel á veg með annað vatnsorkuver sitt sem reist er á Grænlandi. Þar er um að ræða 15 megavatta virkjun við Sisimiut norðarlega á Vestur-Grænlandi en fyrirtækið lauk við aðra 7 megavatta virkjun í Qorlortorsuaq á Suður-Grænlandi haustið 2007.

Nýja orkuverið sem fyrirhugað er að reisa verður jafn stórt og Sisimiut orkuverið, 15 megavött. Það verður reist enn norðar með ströndinni við bæinn Ilulissat sem er um 200 kílómetrum norðan við norðurheimskautsbaug.