*

sunnudagur, 5. desember 2021
Erlent 25. nóvember 2017 10:02

Byggja íþróttahöll í Færeyjum

Á. Óskarsson ehf. byggir um þessar mundir stærstu íþróttahöll Færeyinga í sveitarfélaginu Vági í Suðurey í Færeyjum fyrir 450 milljónir.

Snorri Páll Gunnarsson
Íþróttahöll Á. Óskarssonar ehf. í Vági í Færeyjum
Aðsend mynd

Innflutnings- og þjónustufyrirtækið Á. Óskarsson ehf., sem sérhæfir sig í vörum og þjónustu tengdri íþrótta- & æskulýðsmálum, byggir um þessar mundir íþróttahöll í sveitarfélaginu Vági í Suðurey í Færeyjum. Rúmlega 5.000 manns búa á eyjunni.

Áætlaður kostnaður við framkvæmdina er um 450 milljónir króna, að sögn Heiðars Reys Ágústssonar, framkvæmdastjóra Á. Óskarssonar. Ráðgert er að íþróttahöllin verði fullbúin á fyrri hluta næsta árs.

Höllin er 75×50 metrar að stærð og verður jafnframt stærsta íþróttahöll Færeyinga. Hún mun innihalda gervigrasvöll, hlaupabraut, klifurvegg og aðstöðu fyrir ýmsar aðrar íþróttir. Íþróttahöllin er langt komin í byggingu, en búið er að reisa húsið sjálft.

Nú er verið að ráðast í lagningu gervigrass, hlaupabrautar og fleira. Við hlið íþróttahallarinnar er Pálshöll, 50 metra sundlaug sem Á. Óskarsson byggði árið 2014.