Hagstofan gaf í vikunni út mannfjöldaspá á Íslandi. Spánni er skipt í lágspá, miðspá og háspá og byggir hver spá um mismunandi forsendum um hagvöxt, frjósemishlutfall og búferlaflutninga.

Í dag búa ríflega 338 þúsund manns á Íslandi. Samkvæmt lágspánni er gert ráð fyrir því að eftir fimmtíu ár muni 367 þúsund manns búa hér, samkvæmt miðspánni verða íbúarnir 452 þúsund en 531 þúsund samkvæmt háspánni.

Húsnæðismarkaðurinn hefur verið mikið í umræðunni síðustu misseri enda hefur skort íbúðir á markaðinn og íbúðaverð hækkað skart, þó hægt hafi á hækkuninni í haust. Í dag eru tæplega 138 þúsund íbúðir í landinu eða að meðaltali 0,406 íbúðir á hvern íbúa.
Varfærin áætlun

Ef miðspá Hagstofunnar rætist þá mun íbúum fjölga um tæplega 114 þúsund á næstu 50 árum. Miðað við 0,406 íbúðir á hvern íbúa þá þarf að byggja ríflega 46 þúsund nýjar íbúðir á þessum tíma.

Miðað við að hver íbúð kosti að meðaltali um 30 milljónir króna í byggingu (85 fermetra íbúð með byggingarkostnað upp á 350 þúsund fermetrann) þá nemur heildarkostnaðurinn tæplega 1.400 milljörðum króna.  Samkvæmt upplýsingum úr verktakageiranum er byggingarkostnaðurinn, sem notaður er við þessa útreikninga, í lægri kantinum.

Áætluð íbúðauppbygging er einnig varfærin því á 50 ára tímabili eru nokkur fjöldi íbúða afskrifaður, bæði vegna þess að þær eyðileggjast og þá eru íbúðarhús stundum rifin til að byggja ný og á það sérstaklega við þegar verið er að þétta byggð. Í þessum tilfellum er fjárfestingin meiri en íbúðafjölgunin kallar á.

íbúðaþörf
íbúðaþörf

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .