*

föstudagur, 6. ágúst 2021
Innlent 30. október 2014 18:58

Feðgar byggja þriggja milljarða hótel

Stracta hotel ehf. stefnir að því að reisa 200 herbergja hótel við Orrustustaði skammt frá Kirkjubæjarklaustri árið 2016.

Trausti Hafliðason
Feðgarnir Hreiðar Hermannsson og Hermann opnuðu nýtt hótel á Hellu þann 17. júní síðasta sumar.

Stefnt er að því að hefja framkvæmdir við nýtt Stracta hótel á Orrustustöðum í Skaftárhreppi fljótlega. Þetta kemur fram í samtali Viðskiptablaðsins við Hreiðar Hermannsson, en hann og sonur hans, Hermann, fyrrverandi atvinnumaður í knattspyrnu, eru eigendur Stracta hotel ehf. Orrustustaðir eru við Brunahraun, skammt austan við Kirkjubæjarklaustur og sunnan við þjóðveginn. Bf Sandfell, sem er í eigu Hreiðars, sér um allar framkvæmdir.

Hótelið við Orrustustaði verður annað hótelið sem þeir feðgar byggja því 17. júní síðastliðið sumar opnuðu þeir 134 herbergja hótel á Hellu. Hreiðar segir að rekstur hótelsins á Hellu hafi gengið betur en hann hafi þorað að vona, sérstaklega þar sem hótelið hafi verið opnað nánast um mitt sumar. Útlitið fyrir næsta sumar sé hins vegar mjög gott.

„Orrustustaðir eru næstir á dagskrá og síðan stefnum við að því að opna hótel við Húsavík í síðasta lagi árið 2017,“ segir Hreiðar. „Upphaflega ætluðum við að opna hótel á Orrustustöðum á næsta ári en skipulagsmálin hafa tekið sinn tíma svo þetta tefst eitthvað. Ég reikna samt með því að við getum byrjað framkvæmdir fljótlega og opnað hótelið árið 2016. Það er ýmislegt sem þarf að huga að, meðal annars þarf að leggja nýjan tæplega 5 kílómetra langan veg, bora eftir heitu og köldu vatni og byggja skolphreinsistöð.“

Einhverjar sögusagnir hafa verið um að búið væri að selja Stracta hótelið á Hellu. Hreiðar skellir upp úr þegar hann er spurður hvort eitthvert sannleikskorn sé í þessum sögum.

„Nei, það er ekki búið að selja hótelið og það er ekki til sölu.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.