Háskólinn í Reykjavík, Vestmannaeyjabær og fleiri aðilar vinna nú saman að því að byggja upp háskólanám í haftengdri nýsköpun í Eyjum. Vonir standa til að fyrstu nemendur geti hafið nám haustið 2016. Munu þeir leggja stund á sjávarútvegstengt nýsköpunarnám í samvinnu við ýmis fyrirtæki í Vestmannaeyjum. Aðstandendur verkefnisins segja það vera hið fyrsta sinnar tegundar hér á landi.

„Þetta er sjúklega spennandi og verður alltaf meira og meira spennandi eftir því sem maður skoðar þetta betur,“ segir Árdís Ármannsdóttir, framkvæmdastjóri stýrihóps verkefnisins, í samtali við Viðskiptablaðið. Ætlunin er að byggja starfsemina upp í húsi sem eitt sinn hýsti fiskiðju. Á efstu hæð hússins verður heimavist fyrir frumkvöðla og nemendur í skólanum.

Vestmannaeyjabær átti frumkvæðið að verkefninu og að sögn Árdísar er nú verið að setja saman námsgreinina og greina þarfir fyrirtækja á svæðinu. Árdís segir að löngun sé eftir meiri tengingu milli menntakerfisins og atvinnulífsins. „Að það sé hægt að fá nemendur til að vinna einhver raunverkefni fyrir fyrirtækin á svæðinu og jafnvel á öðrum svæðum,“ segir hún.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .