Samherji fiskeldi ehf. hefur gert samninga við HS Orku um uppbyggingu laxeldis á landi í Auðlindagarðinum við Reykjanesvirkjun. Samningar hafa enn fremur náð samningum við landeigendur vegna uppbyggingarinnar. Félagið hefur tryggt sér aðgang að sjó og raforku til að framleiða allt að 40 þúsund tonn af laxi á landi árlega auk þess sem nýttur verður ylsjór sem er affall frá kælingu Reykjanesvirkjunar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu .

„Uppbyggingin laxeldis á landi innan Auðlindagarðsins byggir á þekkingu Samherja fiskeldis og HS Orku á afar ólíkum sviðum en þegar hún er lögð saman teljum við hagkvæmt að þróa umfangsmikið landeldi sem hljóta að teljast mikil tíðindi. Þá munu þessar fjárfestingar skapa tugi starfa í Reykjanesbæ og á Suðurnesjum og auka útflutningstekjur Íslands umtalsvert. Stjórn Samherja hf hefur þegar samþykkt að leggja þessu landeldisverkefni til 7,5 milljarða króna til þess að tyggja uppbyggingu fyrsta fasa,“ er haft eftir Þorsteini Má Baldvinssyni í tilkynningunni.

Áætlanir gera ráð fyrir því að uppbyggingin verði í þremur fösum. Seiðaeldi við fyrsta áfanga á að fara af stað 2023 og áframeldi og vinnsla á afurðum næstu tvö árin þar á eftir. Framleiðslugeta eftir fyrsta áfanga verður 10 þúsund tonn og er áætlað að sá áfangi muni kosta 17 milljarða króna. Tvöföldun framleiðslugetu mun á sér stað í öðrum áfanga og önnur tvöföldun til viðbótar þegar þriðja áfanga lýkur. Er áætlað að það verði 2032 en vinna við matsferli, leyfismál og hönnun en þegar farin af stað.

Í Auðlindagarðinum í kringum jarðvarmavirkjanir HS Orku hefur byggst upp einstakt samfélag fyrirtækja sem nýta affallsstrauma frá virkjununum í starfsemi sinni. Fyrirtækin í Auðlindagarðinum eru í dag ellefu talsins og verður landeldi Samherja fiskeldis það tólfta.