*

föstudagur, 14. ágúst 2020
Innlent 7. apríl 2018 14:05

Byggja upp nýjan Odda

Umfangsmiklar breytingar munu eiga sér stað hjá Odda á komandi misserum, en fyrirtækið fagnar 75 ára afmæli.

Snorri Páll Gunnarsson
Kristján Geir Gunnarsson, nýr framkvæmdastjóri Odda. Velta Odda nam 4,5 milljörðum króna árið 2016.
Eva Björk Ægisdóttir

Oddi, ein stærsta prentsmiðja landsins, stendur á tímamótum í rekstrinum. Launahækkanir og styrking krónunnar hafa leikið fyrirtækið grátt síðastliðin ár, með þeim afleiðingum að nýverið lagðist af fjöldi starfa hjá fyrirtækinu. Prentun og framleiðsla innbundinna bóka, sem Oddi hefur sinnt um áratugaskeið, heyra nú sögunni til og hefur fyrirtækið hætt framleiðslu á plast- og bylgjuumbúðum. 

Oddi fagnar 75 ára afmæli í ár, en nýr framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir að það hafi þurft að breyta eðli þess til að lifa af heilan mannsaldur til viðbótar.

„Þessi staða kom ekki upp allt í einu. Þetta er búið að hlaðast upp um langt skeið eins og snjóbolti,“ segir Kristján Geir Gunnarsson, nýr framkvæmdastjóri Odda. Fyrirtækið sagði upp 86 manns í lok janúar síðastliðins vegna neikvæðrar þróunar í samkeppnisumhverfi á prent- og umbúðamarkaði. Á sama tíma var tilkynnt að framleiðslu yrði hætt í umbúðavinnslu Kassagerðarinnar, sem sameinaðist Odda árið 2008, og plastumbúðavinnslu Plastprents, sem sameinaðist Odda árið 2012. 

Krónunni og launahækkunum að kenna

„Gengi krónunnar hefur styrkst og laun hafa hækkað langt umfram það sem þekkist annars staðar. Þetta hefur reynst okkur erfitt, enda þættir sem við ráð­um ekki við, og veikt okkar stöðu í samkeppni við erlenda framleið­endur um prentun og umbúðir,“ segir Kristján.

Oddi keppir við erlenda framleiðendur á alþjóðamarkaði um prentun bóka, tímarita og bæklinga, sem og umbúðir, ýmist pappaumbúðir og plastumbúð­ir. Fyrirtækið keppir við erlenda framleiðendur á innlendum markaði, innlenda milliliði fyrir erlenda framleiðendur, og erlenda framleiðendur sem selja beint til íslenskra fyrirtækja. Um er að ræða markað þar sem vörur eru mjög einsleitar.

Prentsmiðjan hefur reynt að bregðast við neikvæðri þróun í samkeppnisumhverfinu með mótvægisaðgerðum, svo sem hagræðingu í rekstri, fækkun starfsfólks og fjárfestingum í sjálfvirknivæðingu, en fáar starfsgreinar hafa á undanförnum árum gengið í gegnum jafn stórstígar breytingar á tækni og prentiðnaðurinn. Oddi hefur hins vegar ekki haft erindi sem erfiði. „Óhagstæðir ytri þættir hafa einfaldlega þurrkað út hagræðinguna,“ segir Kristján.

Efla pakkningalausnir

Til að ná aftur vopnum sínum ákváðu stjórnendur Odda að breyta eðli fyrirtækisins og ráð­ast í umfangsmiklar breytingar á rekstri þess.

„Þegar þessir ytri þættir fóru að vega þyngra en mótvægisaðgerðirnar urðum við að bregð­ast við. Stjórnendur og eigendur Odda mátu það svo að það væru meiri líkur á því að bæta árangur félagsins með því að byggja upp nýjan Odda og ráðast í grundvallarbreytingar á rekstrinum,“ segir Kristján.

„Í því felst að við eflum umbúðalausnir fyrir innlend og erlend fyrirtæki á grunni áratugaþekkingar sem liggur í félaginu. Í stað þess að framleiða plast- og bylgjuumbúðir flytjum við það inn. Á sama tíma eflum við prentun á bókum í kilju, hættum að framleiða innbundnar bækur og eflum öskjuframleiðslu. Þannig teljum við að við náum að tryggja stöðu okkar til framtíðar.“

Viðskiptavinir Odda eru yfir 3.000. Stærsti viðskiptavinahópur fyrirtækisins er í sjávarútvegi og iðnframleiðslu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Oddi prentsmiðja umbúðir prent pakkningar