Fjárfestar hafa að undanförnu tekið miklar skortstöður í bandaríska matvælaframleiðandanum Beyond Meat. Skortstöður í félaginu hafa aukist um 40% eftir að það sendi frá sér afkomuviðvörun í október. Samkvæmt breska blaðinu Financial Times nemur andvirði útistandandi skortstöðu á hlutabréf fyrirtækisins 42% af markaðsverðmæti þeirra. Fjárfestar taka skortstöður í hlutabréfum fyrirtækja í krafti væntinga um að gengi þeirra eigi eftir að falla.

Beyond Meat hefur verið í fararbroddi matvælaframleiðanda sem framleiðir kjötlíki úr grænmetis- og plöntuafurðum. Var félagið það fyrsta sinnar tegundar sem skráð var á hlutabréfamarkað vestanhafs. Þrátt fyrir að fyrirtækið hafi notið meðbyrs á undanförnum árum samhliða vísbendingum um vaxandi vinsældir vegan-matarræðis hefur tekið að syrta í álinn að undanförnu.

Samkvæmt umfjöllun Financial Times hefur dregið úr vexti sölu á kjötlíki í bandarískum og breskum verslunum. Mikill vöxtur var í sölu á slíkum vörum árið 2020 en vöxturinn tók að staðna í fyrra. Er það meðal annars rakið til röskunar á aðfangakeðjum og þeirri staðreynd að neytendur tóku á ný að sækja veitingastaði á árinu sem var að líða meðan að þeir borðuðu meira heima fyrir vegna heimsfaraldursins árið þar á undan.