Að sögn Magnúsar Garðarssonar, forgöngumanns fyrir kísilver á Suðurnesjunum, eru áform þeirra um byggingu kísilvers óbreytt svo framarlega sem félagið nái samningum um orku.

“Okkur vantar orku. Annars er allt tilbúið. Við erum búnir að fá leyfi og við erum búnir að fjármagna þetta en okkur vantar orku. En ef við fáum það ekki fara fjárfestar að verða óþolinmóðir.”

Félagið hyggst reisa kísilverksmiðju við Helguvík og hafa áform félagsins snúist um að reisa tvo ofna sem þarf 60 MW til að knýja. Að sögn Magnúsar er um að ræða fjárfestingu upp á 110 milljónir evra og gert var ráð fyrir að 90 störf sköpuðust fyrsta kastið.

Magnús sagðist hafa átt í viðræðum við Hitaveitu Suðurnesja, Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjun.

Hann sagði málið vera fast í pólitískri þrætu um að ekki meigi flytja orkuna á milli svæða. Magnús sagði að hugsanlega fengi hann helming orkunnar en hann sagðist ekki vera viss um að fjárfestarnir hefðu áhuga á slíku enda væri það óhagkvæmara.

“Við erum með samning um að ef við fáum 60 MW þá förum við af stað,” sagði Magnús. Hann stundar viðskipti í Danmörku og hyggst eiga 20% í félaginu. Hann sagðist ekki geta gefið upp að svo stöddu hverjir séu meðfjárfestar hans.