Ólafur Ólafsson og Guðmundur Hjaltason nýttu rétt sinn til að mæta frekar fyrir dómara, samkvæmt heildarákvæði í lögum lögum um rannsóknarnefndir Alþingis, heldur en að koma á fund rannsóknarnefndar til skýrslugjafar. Þetta kemur fram í ábendingu frá lögmanni Ólafs og Guðmundar. Þar er tekið fram að allt í kringum rannsóknarferlið sé undarlegt, fordæmalaust og byggt á órökstuddum dygljum.

Þar segir að Ólafur og Guðmundur hafi lagt fram skriflega bókun við fyrirtöku málsins, þar sem þeir kröfðust úrskurðar dómara um hvort lögmætt tilefni hafi verið fyrir skipun nefndarinnar. Þar bentu þeir meðal annars á að eftirlit Alþingis taki til framkvæmdavaldsins, en ekki til lögskipta einstaklinga af einkaréttarlegum toga. „Ekki fái heldur staðist að þegar mál sem varða einstaklinga eru fyrnd, og þar af leiðandi ekki skilyrði til rannsóknar þeirra samkvæmt almennum reglum, að þá ákveði þingmenn, á pólitískum forsendum, að skipa rannsóknarnefnd í staðinn.   Allt í kringum þetta rannsóknarferli er undarlegt, fordæmalaust og byggt á órökstuddum dylgjum.  Nánari röksemdir Ólafs og Guðmundar hafa verið færðar fram fyrir héraðsdómi og er úrskurðar að vænta fljótlega,“ er einnig tekið fram í tilkynningu lögmanns Ólafs og Guðmundar.

Hér er hægt að lesa yfirlýsinguna:

Fyrir hönd umbjóðenda minna Ólafs Ólafssonar og Guðmundar Hjaltasonar vil ég koma eftirfarandi athugasemd á framfæri vegna fréttaflutnings í dag um rannsókn rannsóknarnefndar Alþingis.

Ólafur og Guðmundur vilja að fram komi að þegar þeir voru boðaðir á fund rannsóknarnefndar til skýrslugjafar þá nýttu þeir rétt sinn til að mæta frekar fyrir dómara, samkvæmt heimildarákvæði í lögum um rannsóknarnefndir Alþingis.  Þeir hafa mætt til héraðsdóms samkvæmt boðunum.

Við fyrirtöku málsins lögðu þeir fram skriflega bókun, þar sem þeir kröfðust úrskurðar dómara um hvort lögmætt tilefni hafi verið til skipunar nefndarinnar.  Þeir benda m.a. á að eftirlit Alþingis taki til framkvæmdavaldsins, en ekki lögskipta einstaklinga af einkaréttarlegum toga.  Ekki fái heldur staðist að þegar mál sem varða einstaklinga eru fyrnd, og þar af leiðandi ekki skilyrði til rannsóknar þeirra samkvæmt almennum reglum, að þá ákveði þingmenn, á pólitískum forsendum, að skipa rannsóknarnefnd í staðinn.   Allt í kringum þetta rannsóknarferli er undarlegt, fordæmalaust og byggt á órökstuddum dylgjum.  Nánari röksemdir Ólafs og Guðmundar hafa verið færðar fram fyrir héraðsdómi og er úrskurðar að vænta fljótlega.