Fram til ársins 2019 stefnir í umsvifamestu framkvæmdir í sögu Félagsstofnunar stúdenta, en þá verða yfir 400 nýjar stúdentaíbúðir og - herbergi lausar til umsóknar fyrir nemendur við Háskóla Íslands.

Framkvæmt verður fyrir 6,3 milljarða króna, en Íbúðalánasjóður fjármagnar 5,6 milljarða af því.

Elstu stúdentagarðar á Íslandi

Flestar íbúðirnar verða við Sæmundargötu 23 við Háskóla Íslands, en þar verður reist fimm hæða hús með 220-230 stúdentaíbúðum og herbergjum með sérbaðherbergi, en sameiginlegu eldhúsi og stofu. Að auki verður bílakjallari undir húsinu.

Einnig verður nýbygging byggð við Gamla garð, elstu stúdentagarða á Íslandi, við Hringbraut en þar verða 70-80 herbergi. Gamli garður var tekinn í notkun 1934 en stefnt er að því að framkvæmdir hefjist haustið 2017 og þeim verði lokið um áramótin 2018/2019.

Ellefu hundruð einingar þegar til leigu hjá FS

„Þetta er stór stund fyrir okkur. Við erum með um 1.100 einingar til leigu og munum nú geta bætt við rúmlega 400 til viðbótar," segir Guðrún Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Félagsstofnunar stúdenta.

Þetta kom fram í fréttatilkynningu í kjölfar undirritunar samnings um fjármögnun Íbúðalánasjóðs á Gamla Garði að viðstöddum ráðherra húsnæðismála, Eyglóar Harðardóttur.

Aldrei jafnmikil eftirspurn eftir stúdentaíbúðum

„Við ætlum að byggja og afhenda þær hratt og örugglega og þessi öfluga fjármögnun frá Íbúðalánasjóði skiptir þar lykilmáli. Þeir vita það sem fylgst hafa með húsnæðismálum stúdenta að það hefur aldrei verið jafn mikil eftirspurn eftir stúdentaíbúðum,“ segir Guðrún enn fremur.

„Nú í haust gátum við aðeins úthlutað rúmlega 200 nýjum íbúum húsnæði hjá okkur þar sem að tæplega 900 íbúar garðanna nýttu sér rétt sinn til að endurnýja leigusamninga. Það hafa aldrei verið jafn margir á biðlista eftir stúdentaíbúð en nú ætlum við að breyta því. “