Byggt verður við húsnæði Menntaskólans við Sund. Viðbyggingin verður 2.832 fermetrar og eftir stækkunina verður heildarstærð skólahúsnæðisins 7800 fermetrar.

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra og Jón Gnarr borgarstjóri undirrituðu samning ráðuneytisins og Reykjavíkurborgar um viðbygginguna í fyrradag. Heildarkostnaður vegna hennar og breytingar á eldra húsnæði verður 1,1 milljarður króna.

Á vef menntamálaráðuneytisins kemur fram að heildarhönnun viðbyggingarinnar er nú lokið. Viðbyggingin verður tveggja hæða og hálf þriðja hæð að Gnoðarvogi , einnar hæðar fjölnotasalur í miðju skólans, með mötuneyti fyrir bæði nemendur og starfsfólk og hluti viðbyggingarinnar er einnig þriggja hæða tengigangur milli tveggja núverandi bygginga. Í viðbyggingunni verða tvær lyftur, sem alveg hefur vantað í skólann.

Miðað er við að viðbyggingin verði tilbúin til innflutnings haustið 2015.