Í tilkynningu frá Byko, sem send var út fyrir skömmu, segir að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um að sekta móðurfélag Byko um 650 milljónir króna veki undrun, sem og það sem í tilkynningunni er sagt vera áróður af hálfu eftirlitsins. Hefur Byko þegar tekið ákvörðun um að kæra ákvörðun eftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála.

Tilkynningin hljóðar í heild sinni svo:

„Samkeppniseftirlitið hefur í dag lagt 650 milljón króna sekt á Norvik hf., móðurfélag Byko, vegna meints brots Byko gegn samkeppnislögum.

Samkeppniseftirlitið opnaði einnig sérstaka upplýsingasíðu um "ólögmætt samráð á byggingavörumarkaði" sem greinilega er ætlað að rökstyðja þessa ákvörðun. Vekur bæði úrskurðurinn og áróðurinn undrun BYKO.

Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins er í beinni andstöðu við nýfallinn dóm fjölskipaðs Héraðsdóms Reykjaness, þar sem 11 af 12 sakborningum í sama máli voru sýknaðir. Dómurinn taldi gögn málsins sýna það með óyggjandi hætti að verðsamkeppni á byggingavörumarkaðnum væri mikil. Orðrétt segir í niðurstöðum dómsins: „Benda öll þessi skilaboð til þess að hið gagnstæða hafi verið, mikil og hörð samkeppni, en ekki verðsamráð“.Vandséð er hvernig hægt er að komast að svo ólíkri niðurstöðu í tveimur málum sem fjalla um sömu málsatvik, þ.e. annars vegar í niðurstöðu fjölskipaðs Héraðsdóms Reykjaness og hins vegar í niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins frá í dag.

Málatilbúnaður Samkeppniseftirlitsins byggir öðrum þræði á því að reglulegar verðkannanir í gegnum síma feli í sér ólögmætt samráð. Er þetta í andstöðu við dóm Héraðsdóms Reykjaness þar sem segir orðrétt: „Eru verðkannanir, hvort sem þær eru gerðar af opinberum aðilum, einkaaðilum, viðskiptavinum, eða innan fyrirtækjanna sjálfra, ekki saknæm háttsemi.“ Niðurstaða héraðsdóms var afdráttarlaus. Verðkönnunarsímtölin sem áttu sér stað voru eðlileg og í samræmi við lög.

Byko telur með ólíkindum að stjórnvald líkt og Samkeppniseftirlitið taki ákvörðun sem er í beinni andstöðu við niðurstöðu dómstóla. Getur slík ákvörðun vart verið lögmæt. Hefur Byko þegar tekið ákvörðun um að kæra ákvörðunina til áfrýjunarnefndar samkeppnismála.“