Sigurður E. Ragnarsson, forstjóri Byko, segir að hætt hafi verið við fyrirhugaða lokun verslunarinnar á Akranesi nú um mánaðamótin.

„Ástæðan er fyrst og fremst sú að við fengum mikla hvatningu og það fór fram undirskriftasöfnun uppi á Skaga þar sem við vorum hvattir til að halda rekstrinum áfram."

Alls munu 764 Akurnesingar hafa ritað nöfn sín á undirskriftarlista. Segir Sigurður að í stað þess að loka þá verði minnkað það pláss sem Byko var með á leigu í Akurhúsinu á Akranesi. Verður smávöruverslunin þá færð úr þeim hluta sem snýr að Þjóðbraut og í hinn enda hússins þar sem lagnadeildin og timbursalan hefur verið.

„Við þjöppum okkur þannig saman og verðum þá með hagkvæmari einingu í stað þess að vera með þetta tvískipt," segir Sigurður.