Jón William Magnússon og Steinþór Jónsson eigendur Ofnasmiðju Suðurnesja hafa selt fyrirtækið sitt til BYKO og voru samningar undirritaðir á mánudag að viðstöddum starfsmönnum fyrirtækisins. Söluverð fyrirtækisins er trúnaðarmál.

Eigendur lögðu mikla áherslu í samningarviðræðum, sem staðið hafa yfir síðustu fjóra mánuði, að allir starfsmenn héldu sinni vinnu við fyrirtækið og að starfstöð OSS yrði áfram að Víkurbraut 2 í Keflavík. Ofnasmiðja Suðurnesja verður því áfram í Reykjanesbæ og munu allir starfsmenn OSS áfram þjóna sínum viðskiptavinum hér eins og hingað til. Í þessu samhengi má taka fram að meðalstarfsaldur fyrirtækisins er um 23 ár sem hlýtur að teljast einstakt nú á dögum og vildu eigendur OSS þakka velgengi fyrirtækisins góðum starfsanda og traustum viðskiptavinum um áraraðir.

Steinþór Jónsson segir að fyrrverandi eigendur sé mjög ánægðir með niðurstöðu þessar viðskipta. Byko fá þarna i hendur vel rekið fyrirtæki sem starfað hefur undir sömu kennitölu í 33 ár. Markaðshlutdeild fyrirtækisins á ofnamarkaði hefur verið yfir 50% og segir Steinþór að með beinni tengingu við lagnadeild Byko skapist gríðarleg tækifæri til að efla fyrirtækið enn frekar. Þá hafi verið mikil uppsveifla á ofnamarkaði síðustu 2-3 ár enda mikið byggt og uppbygging húsnæðis í algjöru hámarki.

"Við viljum nota tækifærið og þakka frábæru starfsfólki samstarfið í gegnum tíðina. Einnig mjög tryggum hópi viðskiptavina sem staðið hafa þétt við bakið á okkur alla tíð," sagði Steinþór Jónsson.

Hann segir að við söluna skapist tækifæri fyrir fjölskylduna til að snúa sér af enn meiri krafti að rekstri Hótels Keflavíkur sem rekið hefur verið á sömu kennitölu í 18 ár. Hann segir hótelreksturinn ganga vel þrátt fyrir aðsteðjandi erfiðleika vegna hás gengis krónunnar. Segir hann að þar skipti sköpum hversu vel fyrirtækið sé statt fjárhagslega og að passað hafi verið upp á að byggja reksturinn upp á eigin fjármagni frekar en miklum lántökum.