Búnaðurinn sem um ræðir gæti margfaldað framlegð fiskeldisfyrirtækja með því að auka afurðagæði og draga úr kostnaði sem þau verða fyrir vegna lúsafaraldurs. Lagt hefur verið mat á að kostnaður norskra fiskeldisstöðva í Noregi vegna lúsavandans nemi um 160 milljörðum íslenskra króna á hverju ári sem gæti sparast með nýjum tæknibúnaði Skagans 3X.

Búnaðurinn sem um ræðir byggir á fræðum gríska stærð- og eðlisfræðingsins Arkímedesar sem talið er að hafi fæðst um 287 fyrir Kristburð. Uppfinninginn er svonefnd Arkímedesarskrúfa. Rómverjar notuðu hana mikið til þess að dæla upp úr ám og vötnum eða vatni úr námum. Skaginn 3X hóf reyndar að framleiða dælur sem byggja á þessari grunntækni strax árið 1994 undir heitinu ValuePump sem notaðar hafa verið meðal annars til að flytja rækju milli hæða og húsa.

„Vandamál sem laxeldisfyrirtæki standa frammi fyrir er laxalús sem þrífst sérstaklega vel í hlýrri sjó. Í Noregi er þetta stórt vandamál, sérstaklega sunnan til í landinu. En laxalúsin þrífst alls staðar, líka við Ísland. Eldisfiskur getur þurft að sæta aflúsun mörgum sinnum á sinni ævi, jafnvel allt að fimm sinnum, en það ræðst þó af aðstæðum. Lúsameðferð getur þurft að hefjast strax þegar eldisfiskur vegur ekki nema 1,5 kg. Fiskurinn þolir meðferðina misjafnlega og að jafnaði drepst ákveðið hlutfall af fiskinum við hverja meðferð,“ segir Albert Högnason vöruþróunarstjóri hjá Skaganum 3X.

Án fóðurs í allt að 10 vikur

Við aflúsun í ferskvatni tíðkast að sjúga fiskinn upp úr kvíum með vakúmdælum upp í ferskvatnstanka. Þar er hann meðhöndlaður og sogaður að því loknu að nýju yfir í kvíar. Albert segir að sannað sé að þessi aðferð valdi mikilli streitu í fiski.

„Viku áður en lúsameðferð hefst er fóðrun hætt í því skyni að búa hann betur undir meðferðina og draga þannig úr fiskidauða. Þetta gengur þvert á markmið eldisfyrirtækja sem er auðvitað að fita fiskinn. Í heila viku eftir lúsameðferðina tekur fiskurinn ekki fóður sem af afleiðing af þeirri streitu sem meðferðin veldur. Þarna fellur strax niður hálfur mánuður í fóðurgjöf. Þurfi að beita lúsameðferð fimm sinnum á æviskeiði fisksins fellur fóðurgjöf niður í tvo og hálfan mánuð og gríðarleg verðmæti fara forgörðum auk þess sem talsverður fiskdauði á sér líka stað,“ segir Albert.

Albert segir að með Arkímedesardælunni vilji menn sýna fram á að minni streita verði í laxi við aflúsun sem skili sér í því að ekki þurfi að draga úr fóðurgjöf í jafn langan tíma og gert er með núverandi aðferðum. Þarna séu gríðarlegir fjárhagslegir hagsmunir í veði en auk þess sé aðferðin afar jákvæður liður í aukinni dýravelferð.

Arkímedesardæla
Arkímedesardæla

  • Búnaðurinn er í raun tilbúinn að mestu leyti en framundan eru frekari prófanir sem nauðsynlegar eru til markaðssetningar á tækninni. Tækið er stórt að umfangi en kæmist þó fyrir í þokkalega stórum bílskúr. Aðsend mynd

„Við breytum Arkimedesardælunni, sem við höfum framleitt í mörg ár, á þann veg að hún geti sogað að sér. Sú leið sem við erum að fara að þessu leiti er alveg ný. Stóri munurinn er sá að í dælunni líður fiskurinn átakalaust áfram í röri sem er hálffullt af vatni og lofti en í vakúmdælum verður hann fyrir höggum og hnjaski sem veldur steitu,“ segir Albert.

Búnaðurinn er í raun tilbúinn að mestu leyti en framundan eru frekari prófanir sem nauðsynlegar eru til markaðssetningar á tækninni. Prófanirnar fara fram í samstarfi við Matís og Arctic Fish og hátæknifyrirtækið Stjörnu-Oddi sem framleiðir hjartsláttarmæla sem verður komið fyrir inni í fiskum tveimur vikum áður en þeim verður dælt með Arkímedesardælunni hefst. Einnig verða streituhormónar mældir í blóði fiskanna. Albert segir að rúmlega 20 milljóna króna styrkur frá Matvælasjóði hafi skipt miklu máli til þess að ná saman samstarfsaðilum og hrinda verkefninu af stað.

„Ég er sannfærður um að búnaðurinn sem kemur út úr þessu verkefni verður útflutningsvara og fyrsti markaðurinn er Noregur. Þar er beðið í ofvæni eftir lausn við lúsavandanum. Sama má segja um fiskeldisfyrirtæki í Chile, Kanada og víðar. Eftir því sem sjórinn er hlýrri er vandamálið stærra,“ segir Albert.

Tækið sjálft sem verður endanleg framleiðsluvara er stórt að umfangi en kæmist þó fyrir í þokkalega stórum bílskúr. Gert er ráð fyrir þvermál röranna verði um 2,5-3 metrar og lengdin 7-8 metrar. Gert er ráð fyrir að mælingar og prófanir fari fram í sumar.

Í kjörstöðu á risamarkaði

„Kostnaður vegna laxa- og fiskilúsa einungis í Noregi er um 120 milljarðar króna á ári. Gróflega skiptist þessi kostnaður að um 60 milljarðar eru vegna afurðatjóns og 60 milljarðar vegna fyrirbyggjandi aðgerða,“ segir Gunnar Þórðarson, svæðisstjóri hjá Matís á sviði virðiskeðju matvæla.

Gunnar segir nokkuð ljóst að um gríðarlegan markað sé um að ræða fyrir þá sem færa fram einhverjar lausnir á þessu vandamáli.

Gunnar bendir á að lúsin lifir ekki í fersku vatni. Fiskeldisfyrirtækin beiti þeirri aðferð að dæla fiskinum úr kvíum í ferskvatnstanka og síðan aftur í kvína. Einnig hafi verið notast við lyf.

„Lúsin er skeldýr og lyfin sem notuð eru gegn henni jafnt í fóðri og í kringum kvíarnar, drepur líka allt annað í umhverfinu, eins og rækju og fleiri sjávarlífverur. Það er því ekki umhverfsvæn aðferð til að kljást við lúsina. Rétta aðferðin er því að dæla fisknum yfir í ferskvatn,“ segir Gunnar.

Hann bendir á að gallinn við þessa aðferð núna sé búnaðurinn sem notaður er við verkið. Þetta eru hávaðasamar vakúmdælur sem valda höggbylgjum og fiskinum mikilli áraun.

Meginástæðan fyrir slysasleppingum

„Það er vitað að fiskurinn stressast mikið við þetta og það getur tekið heila viku áður en hann sækir í fóður aftur eftir þessa meðferð. Þessu til viðbótar má koma fram að meginástæðan fyrir slysasleppingum í laxeldi í Noregi er þessi meðhöndlun. Það er ekki mikið um það að gat komi á kvíapoka eða eitthvað ámóta heldur sleppur fiskur vegna þess að eitthvað misferst við dælinguna með vakúmdælunum.“

Gunnar segir að hönnun Skagans 3X felist í lokaðu kerfi sem bjóði upp á heildarlausn á viðfangsefninu. Dælan sé einföld að allri gerð og fáir vélrænir slitfletir í henni. Hún er dýr búnaður, jafnvel allt að 200 milljónir króna einingin sem samanstendur af þremur dælum. Kostirnir við Arkímedesardæluna séu á hinn bóginn ótvíræðir.  Arkímedesardælan, sem er tvöþúsund ára gömul uppfinning, er þeim kostum búinn að fiskurinn skynjar það ekki að þegar honum er dælt áfram. Dælan er hljóðlaus - fiskurinn líði í gegnum vatnið að áfangastað og það koma engir púlsar eða höggbylgjur við dælinguna.

Dýravelferð stöðugt mikilvægari

„Fyrirtæki sem nær að koma fram með búnað sem veldur minna stressi, býr yfir meira öryggi og minni hættu á sleppingum er í kjörstöðu á risamarkaði. Þetta er svo einungis önnur hlið málsins. Fiskeldisfyrirtæki nota öll vakúmdælur til að dæla fiski inn til slátrunar. Það er vitað og viðurkennt að streita fyrir slátrun hefur áhrif á afurðagæði. Streituhormónarnir gera holdið seigara og valda jafnvel bragðmengun. Það að draga úr streitu fiska fyrir slátrun hefur mikil áhrif á gæði afurðanna. Þó að við trúum því að Arkímedesardælan hafi marga kosti umfram hefðbundnar dælur þá þurfum við að geta sýnt fram á það. Það ætlum við að gera með því að setja í laxa mæla frá Stjörnu-Odda sem mæla hjartslátt og hitastig, en það hefur ekki áður verið gert með laxa. Með þessu móti ætlum við að bera saman áhrif dælingar á fiska úr þessum tveimur gerðum dæla.“

Prófun af þessu tagi var gerð í fyrra þegar regnbogasilungi var dælt í gegnum Arkímedesardælu. Ferlið hafði ekki hin minnstu áhrif á fiskinn, samkvæmt niðurstöðum allra mælinga.

Gunnar segir að óháð efnahagslega ávinningnum af þessari aðferð þá skipti dýravelferð stöðugt meira máli. Neytendur vilji frekar kaupa afurð dýra sem ekki hafa liðið kvalir.  Hann segir að takist að sýna fram á ágæti þessarar aðferðar með vísindalegum niðurstöðum gæti Arkímedesardælan verið sannkölluð gullkista fyrir Skagann 3X.

Verktakar fremur en fiskeldisfyrirtæki

Egill Ólafsson, þjónustustjóri hjá Arctic Sea Farm, segir fyrirtækið hafa  tekið þátt í mörgum verkefnum með Skaganum 3X og Matís og dælukerfið sem nú er unnið að því að þróa sé spennandi nýsköpun sem eigi mikla möguleika fyrir sér.

„Það yrði okkur mikill akkur af búnaði sem þessum og draga úr þeim dagafjölda sem við getum ekki fóðrað. Það er ekki gott að fóðra fiskinn rétt fyrir meðhöndlun og svo er hann lengur að ná upp lystinni vegna streitu. Á meðan  borðar hann ekki og vex ekki. En þetta snýst þó ekki síður um velferð fisksins og við hlúum að henni með því að halda niðri stressi í honum,“ segir Egill.

Lúsavandamál er ekki mikið í íslensku fiskeldi sé það borið saman við aðra staði á jörðinni. Íslenskt fiskeldi sé ekki að kljást við sömu aðstæður og Norðmenn og Færeyingar hvað þetta varðar. Engu að síður hljótist mikill kostnaður af lúsameðhöndlun hér við land eins og annars staðar.

Egill segir búnað af þessu tagi sem verið er að þróa dýran. Sennilega myndu fiskeldisstöðvar ekki fjárfesta í honum heldur þjónustufyrirtæki sem þjónusta fleiri en eitt fiskeldisfyrirtæki. Þó er ekki útilokað að stór laxeldisfyrirtæki fjárfesti í búnaðinum en hann sér fyrir sér að verktakar sem þjónustu fleiri og smærri aðila eigi búnaðinn og selji þessa þjónustu.

„Í Noregi sjá verktakar alfarið um þessa þjónustu og gera þá samninga allt frá einu til fimm ára.“

Egill segir að aðkoma Arctic Sea Farm að samstarfsverkefninu sé að útvega fisk og aðstöðu til mælinga og prófunar á búnaðinum sem fara fram í sumar en ekki síður að veita aðgengi að víðtæku tengslaneti fyrirtækisins inni í veröld laxeldisins.

Umfjöllunin birtist fyrst í páskablaði Fiskifrétta 31. mars sl.