Ólafur Andri Ragnarsson, frumkvöðull og aðjúnkt í nýtækni og nýsköpun í Háskólanum í Reykjavík, segir stafræna umbreytingu eiga sér stað nú um stundir. Hann segir hina svokölluðu fjórðu iðnbyltingu breyta nánast öllu í nútímasamfélagi, og væri því að vissu leyti einstök. Verslun breytist, breytingar verða hjá fyrirtækjum, neyslumynstur einstaklinga breytist, menntun gjörbreytist. Iðnbyltingin mun einnig hafa áhrif á störf; sum störf hverfa, sumum störfum fækkar og önnur breytast. Þetta var meðal þess sem var rætt á hádegisverðafundi Kviku sem bar yfirskriftina Fjórða iðnbyltingin – Umbreytingin er hafin.

Fjórðu iðnbyltinguna væri hægt að skilgreina sem starfræna byltingu sem nýtir samspil ólíkra greina. Hún er því í eðli sínu mikið hreyfiafl. Nýir markaðir verða til á meðan aðrir fjara út og framleiðni eykst. Áhrif byltingarinnar mun gæta um samfélagið allt. Það sem einkennir tæknibyltinguna er hraði breytinganna sem dynur yfir okkur og enginn fer varhluta af, hvorki fyrirtæki, fjárfestar né einstaklingar. Viðskiptahættir og neysluhegðun fólks breytist í sífelldu.

„Svona höfum við alltaf gert þetta“

Rótgróin fyrirtæki, sem hafa starfað í nokkra áratugi, eru orðin býsna sjóuð og allir innan fyrirtækisins eru sérfræðingar og telja sig alveg vita hvað þau eiga að gera. „Svo kemur einhver eins og ég og segi: Það er allt að gerast hérna,“ segir Ólafur. „Þá hrista menn hausinn og segja: Svona höfum við alltaf gert þetta.“ Ólafur telur mikilvægt að hugsa málið betur þar sem tækni kallar á breytingar. „Við erum með grunn sem er að breytast.“

Hann bendir einnig á að fólk vari sig á því sem kallað er „hroki nútíðarinnar“ (e. arrogance of the presence), þar sem við höfum einungis gögn um fortíðina en ekki framtíðina. „Okkur hættir til að dæma tæknibreytingarnar út frá fortíðinni – hvað við höfðum – í stað þess að skoða möguleikana sem við höfum.“ Máli sínu til stuðnings rifjar Ólafur Andri upp þá sögu þegar Steve Jobs tilkynnti um útgáfu iPhone árið 2007 og allur farsímaheimurinn fór í upphaf. „Nokkrum dögum síðar á ráðstefnu í Barcelona kemur blaðamaður og spyr Steve Balmer, forstjóra Microsoft sem var að reyna fyrir sér í farsímabransanum hvað honum fyndist um þennan iPhone?“ Í stuttu máli svaraði Balmer því að honum þætti verðið fáránlegt og hló að því að síminn hefði ekki lyklaborð og hentaði viðskiptajöfrum þess tíma illa.

Tæknin mótar byltinguna

„Það sem við höfum í dag er öll þessi tækni: gagnanet, drónarnir, internetið, snjallsímar. Allir þessir hlutir eru það sem búa mun til byltinguna sem er fram undan. Nýjar vörur, ný þjónusta, samfélagsbreytingar. Undirstöðurnar liggja fyrir og nú koma breytingarnar,“ sagði Ólafur Andri á fundinum.

Það eru ekki bara breytingar hjá tæknifyrirtækjum að sögn Ólafs, heldur hjá öllum fyrirtækjum. „Bankar, verslun, tryggingafélög, öll fyrirtæki í hefðbundnum viðskiptum mega fara að nýta sér þessa tækni.“ Hann segir að fólk eigi það til að ofmeta ávinning tækniþróunar til skamms tíma en vanmeta ávinninginn til langs tíma. „Tæknin þróast ekki eins og við horfum fram í tímann,“ segir hann og bætir við að við horfum línulega fram í tímann, en hvað varðar tæknina gerist ekki neitt í langan tíma og svo allt í einu springur allt út og allt gerist í einu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .