Gert er ráð fyrir að um fjögur hundruð manns mæti á fund stofnfjáreigenda Byrs sparisjóðs sem fram fer á morgun, miðvikudag, að sögn Ragnars Zophoníasar Guðjónssonar sparisjóðsstjóra. Eitt mál verður á dagskrá fundarins: Tillaga stjórnar um að rekstrarformi sjóðsins verði breytt í hlutafélag.

Ragnar kveðst telja að menn séu almennt jákvæðir í garð þeirrar breytingar. Samkvæmt lögum þurfa að minnsta kosti 2/3 stofnfjáreigenda að samþykkja þær, að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins.

Fundurinn fer fram á Hótel Nordica og hefst kl. 17. Stjórn Byrs telur að breytingin hafi fleiri kosti en galla. Til dæmis verði aðgengi að fjármagni auðveldara.