Fjármálaráðuneytið mun afhenda slitastjórn Byrs sparisjóðs allt hlutafé í Byr hf. á næstu vikum samþykki Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) að eiginfjárframlag og víkjandi lán ríkisins til bankans standist reglur um ríkisstyrki. Fjármálaeftirlitið (FME) og Samkeppniseftirlitið hafa þegar samþykkt yfirfærsluna fyrir sitt leyti. Vonir standa til þess að hægt verði að klára málið fyrir janúarlok.

Í höndum ráðuneytis

Tilkynnt var um það í október síðastliðnum að fjármálaráðuneytið og Byr hf. hefðu náð samkomulagi um fjármögnun bankans. Til viðbótar við þær 900 milljónir króna sem íslenska ríkið hafði þá þegar lagt inn í bankann sem nýtt eigið fé veitti fjármálaráðuneytið honum 5 milljarða króna víkjandi lán til 10 ára. Samhliða var ákveðið að ríkið breytti kröfum sínum í Byr í 5,2% eignarhlut. Fjármálaráðuneytinu var einnig falið varsla og umsjón 94,2% hlutar í Byr þar til eftirlitsaðilar myndu ljúka umfjöllun sinni um málið.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölublöð.