Hagnaður Byrs á síðasta ári eftir skatta nam 1.109 milljónum króna, samkvæmt fréttatilkynningu um ársreikning félagsins. Eigið fé bankans í árslok var um 8,9 milljarðar króna. Tekið er fram að uppgjörið byggir á rúmlega átta mánaða tímabili, sem hófst 23. apríl 2010 og lauk 31. desember 2010. „Að teknu tilliti til skráningar Íslandsbanka fyrir nýju hlutafé í Byr hf. að fjárhæð 10.000 millj. kr. reiknast eiginfjárhlutfall (CAD) Byrs hf. 14.6% miðað við fjárhæðir í árslok 2010 og ef dregið væri á víkjandi lán frá ríkissjóði samkvæmt samkomulagi frá 14. október 2010 að fjárhæð 5.000 millj. kr. reiknast eiginfjárhlutfall (CAD) 19,3%,“ segir í tilkynningu bankans. Ársreikningur Byrs er birtur á heimasíðu bankans.

Jón Finnbogason, forstjóri Byrs, segir í tilkynninu að starfsemi bankans hafi einkum mótast af þremur atriðum: „Reglubundinn rekstur bankans skilaði jákvæðri niðurstöðu þrátt fyrir erfiðar ytri aðstæður.  Starfsemi bankans einkenndist einkum af þrennu, í fyrsta lagi úrvinnslu á málefnum viðskiptavina, í öðru lagi stofnun og mótun á nýjum banka og í þriðja lagi vinnu við uppgjör á milli Byrs hf. og slitastjórnar Byrs sparisjóðs sem leiddi til þess að um mitt ár 2011 var hafist handa við söluferli á bankanum.

Söluferlinu lauk með samningum um kaup Íslandsbanka hf. á öllu útgefnu hlutafé í bankanum og nýju hlutafé í Byr hf. með það að markmiði að styrkja stoðir Byrs hf. og að sameina bankana tvo í eitt öflugt fjármálafyrirtæki.  Samkeppniseftirlit og Fjármálaeftirlit hafa nú málið til skoðunar og beðið er samþykkis þeirra fyrir samrunanum. Byr hf. og forverar hans hafa um langt skeið veitt góða þjónustu til viðskiptavina sinna og er ég þess fullviss að þeirri góðu þjónustu verði vel viðhaldið í sameinuðum banka, Byrs hf. og Íslandsbanka hf.“

Helstu niðurstöður í rekstrar- og efnahagsreikningi samkvæmt tilkynningu:

§ Afkoma Byrs hf. fyrir tímabilið 23.04 til 31.12 2010 var jákvæð um 1.595 m. kr. fyrir skatta og 1.109 m. kr. eftir skatta sem námu 486 m. kr.

§ Vaxtamunur af meðalstöðu eigna og skulda tímabilsins nam 3,27% reiknað á ársgrundvelli.

§ Heildareignir námu 140.471 m. kr. og heildarskuldir 138.462 m. kr. að meðtalinni skuld við slitastjórn Byrs sparisjóðs að fjárhæð 6.862 m. kr., sem breytt hefur verið í hlutafé.

§ Eigið fé í árslok nam 2.009 m. kr. og samanstendur af hlutafé sem ríkissjóður lagði fram við stofnun Byrs hf. að upphæð 900 m. kr. og óráðstöfuðu eigin fé sem endurspeglar rekstrarniðurstöðu tímabilsins að upphæð 1.109 m. kr.  Í árslok nam skuld Byrs hf.  við slitastjórn Byrs sparisjóðs alls 6.862 m. kr., sem var breytt í hlutafé í júní 2011, sem liður í fullnaðaruppgjöri milli Byrs hf. og slitastjórnar Byrs sparisjóðs.  Eftir framangreint uppgjör var eigið fé Byrs hf. því 8.871 m. kr. og eiginfjárhlutfall (CAD-hlutfall) 5,0%.

§ Að teknu tilliti til skráningar Íslandsbanka fyrir nýju hlutafé í Byr hf. að fjárhæð 10.000 m. kr. reiknast eiginfjárhlutfall (CAD) Byrs hf. 14.6% (Tier 1) miðað við fjárhæðir í árslok 2010 og ef dregið væri á víkjandi lán frá ríkissjóði samkvæmt samkomulagi frá 14. október 2010 að fjárhæð 5.000 m. kr. reiknast eiginfjárhlutfall (CAD) 19,3% (Tier 2). Gerð er krafa um Tier 1 upp á 12% og Tier 2 upp á 16%.

§ Vaxtatekjur námu 7.377 m. kr. á rekstrartímabilinu. Vaxtagjöld námu 4.925 m. kr.  Hreinar vaxtatekjur námu því 2.452 m. kr.

§ Hreinar rekstrartekjur námu 4.474 m. kr. og rekstrargjöld námu 2.697 m. kr.

§ Gjaldfært iðgjald í Tryggingasjóð innstæðueigenda og fjárfesta var 196 m. kr.

§ Virðisrýrnun útlána, krafna og óefnislegra eigna nam 685 m. kr.