Jón Þorsteinn Jónsson, stjórnarformaður Byr Sparisjóðs segir að sparisjóðurinn eigi ekki viðræðum við aðrar bankastofnanir um sameiningu eins og sakir standa.

„Ég held þó að það verði einhverjar sameiningar á þessu ári“ segir Jón Þorsteinn í samtali við Viðskiptablaðið og bætir því við að skynsamlegt geti verið að sameina einhverjar fjármálastofnanir á Íslandi.

Hann segir að ekkert sé þó hægt að segja til um hverjar þær eigi eftir að vera. Nú bíði menn og sjái hvernig málin með Glitni þróast næstu daga og vikur.

Eins og fram kom í fjölmiðlum í gær var samrunaviðræðum Glitnis og Byr slitið í kjölfar þess að íslenska ríkið yfirtók 75% hlutafjár Glitnis.

Jón Þorsteinn segir að Glitnir hafi á sínum tíma leitað eftir sameiningu við Byr.