Ragnar Zophanías Guðjónsson, sparisjóðsstjóri Byrs, segir að enn sé unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu sparisjóðsins. Vinnan felist fyrst og fremst í viðræðum við kröfuhafa og fjármálaráðuneytið.

„Það er skilgreiningaratriði hvað er á lokastigi, " svarar hann, þegar hann er inntur eftir því hvort viðræðurnar og þar með endurskipulagningin sé á lokastigi.

Hann segist ekki vilja tjá sig mikið um framvinduna. „Það er verið að vinna í þessu og miðar áfram með hverri viku sem líður," segir hann.

Byr óskaði eftir því við stjórnvöld í mars, í samræmi við neyðarlögin, að þau leggðu sjóðnum til eigið fé. Engin niðurstaða er heldur komin í það mál.