Líkt og margir Lundúnarbúar var Sam Cookney kominn með nóg af háu húsnæðisverði í ensku höfuðborginni. Hann ákvað því að flytja til Barcelona, sem væri ekki frásögum færandi nema hann hélt áfram að vinna í Lundúnum. Business Insider fjallar um þennan athyglisverða mann.

Cookney sest upp í flugvél á hverjum morgni á Spáni, flýgur til Englands og er sestur við skrifborð sitt í Lundúnum klukkan 9:30 að morgni til. Hann hefur bæði bloggað og tíst um þessa flutninga sína og ferðalög sem hafa vakið mikla athygli á netinu.

Í október 2013 skrifaði Cookney bloggfærslu þar sem hann sýndi svart á hvítu að það væri hagstæðara fyrir hann að búa í Barcelona og vinna í Lundúnum heldur en að búa í síðarnefndu borginni.

Cookney getur flogið frá El Prat flugvelli í Barcelona til Stansted flugvallar rétt utan Lundúna fyrir um það bil 5.000 krónur aðra leið. Flugið tekur tæplega tvær klukkustundir, en í samtali við BuzzFeed sagði hann að miðarnir geti kostað allt að 18.000 krónur.

Fylgjast má með ævintýrum Cookney á Twitter síðu hans .