Byr sparisjóður greiddi árangurstengdan bónus upp á 29,5 milljónir króna til framkvæmdastjóra markaðsviðskipta sjóðsins 2. mars 2010. Þetta kemur fram í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um fall sparisjóðanna. Þess ber að geta að sjóðurinn var tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu rétt rúmum mánuði síðar 26. apríl 2010. Greiðslan miðaðist við hagnað af markaðsviðskiptum sparisjóðsins en hagnaðurinn miðaðist við reiknireglu í ráðningarsamningi framkvæmdastjórans. Í fundargerð stjórnar var lagt fram minnisblað frá KPMG sem staðfesti útreikninginn og lögfræðiálit frá Landslögum sem staðfesti að um lögmæta launakröfu væri að ræða.

Í skýrslunni segir að framkvæmdastjóri markaðsviðskipta hafi svo sjálfur látið 5 milljónir króna af greiðslunni renna til forstöðumanns markaðsviðskipta. Á sama tíma voru einnig greiddar samtals 10 milljónir króna til 17 starfsmanna vegna vinnuálags í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu. Greiðsla til hvers starfsmanns var á bilinu 400 til 1.200 þúsund krónur.

Misserin á undan hafði sjóðurinn einnig greidd tugi milljóna til starfsmanna í kaupaukagreiðslur. 97 milljónir voru greiddar í janúar 2008 til 206 starfsmanna. Í febrúar 2008 fengu sparisjóðsstjórarnir tveir, þeir Ragnar Z. Guðjónsson og Magnús Ægir Magnússon kaupaukagreiðslur upp á 9,2 milljónir króna hvor. Að auki voru þá inntar af hendi tæpar 2 milljónir króna í kaupaukagreiðslur til sjö starfsmanna, sem fengu á bilinu 25 til 503 þúsund krónur hver.

Sé farið aðeins lengra aftur í tímann má lesa að í mars 2007 var framkvæmdastjóra markaðsviðskipta greidd kaupaukagreiðsla upp á 12,5 milljónir króna og forstöðumanni markaðsviðskipta 1,5 milljónir króna. Í apríl 2007 fékk framkvæmdastjóri fyrirtækjaþjónustu 5,9 milljóna króna kaupkaupagreiðslu. Þá fengu tveir forstöðumenn hvor um sig greiddan 270 þúsund króna kaupauka í júní 2007.