Víðtæk samstaða er meðal eigenda Byrs sparisjóðs um að hann verði sameinaður Glitni.

Búast má við að sameiningaráform verði tilkynnt um eða eftir helgi.

Markmiðið er meðal annars að ná fram aukinni hagræðingu og auðvelda aðgang að fjármagni. Með sameiningu Glitnis og Byrs myndi eiginfjárhlutfall sameinaðs banka verða 11,9%, samkvæmt útreikningum Viðskiptablaðsins.

Eiginfjárhlutfall Glitnis við lok annars ársfjórðungs var 11,1% og eiginfjárhlutfall Byrs við lok annars fjórðungs var 23,5%.

Þess ber að geta að Byr getur ekki sameinast Glitni fyrr en rekstrarformi sjóðsins hefur verið breytt í hlutafélag. Stofnfjárfundur Byrs samþykkti slíka breytingu, með yfirgnæfandi meirihluta, í lok ágúst og er nú beðið eftir samþykki Fjármálaeftirlitsins.

Veiti FME samþykki sitt þarf að bera sameiningu undir stjórn Glitnis og Byrs og hluthafafundi. Verði sameining samþykkt á þeim stöðum, þarf hún samþykki Fjármálaeftirlitsins og Samkeppniseftirlitsins, áður en hún getur náð fram að ganga.