Stofnfjáreigendur Byrs sparisjóðs verða boðaðir til fundar í ágúst eða september til að taka ákvörðun um það hvort breyta eigi rekstrarformi sjóðsins yfir í hlutafélag.

Stjórn Byrs ákvað í síðustu viku að stefna að hlutafélagavæðingu. Hún telur kostina fleiri en gallana.

Til dæmis verði aðgengi að fjármagni auðveldara. Samkvæmt lögum þurfa að minnsta kosti 2/3 stofnfjáreigenda að samþykkja umræddar breytingar.

Í tilkynningu frá Byr frá því fyrir helgi er því sérstaklega vísað á bug að sjóðurinn hafi hug á samruna við aðrar fjármálastofnanir.

Þegar Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Glitnis, er spurður hvort einhverjar sameiningarviðræður séu í gangi milli Glitnis og Byrs segir hann: „Ekki sem ég þekki til.“

Þegar hann er spurður hvort slíkt sé í spilunum, svarar hann á sömu lund; hann þekki ekki til þess.