Afkoma Byrs fyrir árið 2008 var neikvæð um 35.833 milljónir króna fyrir skatta samanborið við 9.613 milljóna króna hagnað árið 2007.

Tap eftir skatta nam 28.881 milljónum króna samanborið við 7.929 milljóna króna hagnað árið 2007.

Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu frá Byr. Í tilkynningunni kemur fram að uppgjör Byrs sparisjóðs fyrir árið 2008 ber þess skýr merki, að á síðasta ári reið yfir íslenskt efnahagslíf eitt versta áfall síðari tíma.

Þá kemur fram að stofnfjáraukning á árinu 2007 ásamt góðri afkomu undanfarinna ára gerir að verkum, að þrátt fyrir ágjöfina er lausafjárstaða Byrs góð og eiginfjárhlutfall innan tilskilinna marka.

Þá segir að meginskýringa á rekstrartapi ársins 2008 sé að leita í verulegum varúðarniðurfærslum á útistandi kröfum og rýrnun eigna.

„Gengið hefur verið langt í slíkum niðurfærslum, í ljósi þeirrar óvissu sem er uppi í efnahags- og atvinnumálum landsmanna,“ segir í tilkynningunni.

„Er það gert þó að einhver hluti þessara krafna gæti fengist greiddur síðar. Byr sparisjóður hefur því alla burði til að ná fyrri styrk, svo framarlega sem aðhalds og varúðar verði gætt í rekstrinum á næstu árum og stjórnvöld geri sparisjóðum kleift að mæta breyttu rekstrarumhverfi.“

Eigið fé dregst saman um 36,9 milljarða

Útlán til viðskiptavina námu 172.325 milljörðum króna og jukust um 46,4% á árinu. Innlán viðskiptavina námu 144.600 milljónum króna og jukust um 106,3% á árinu. Þá var vaxtamunur tímabilsins 2,2% samanborið við 1,9% árið 2007. Heildareignir félagsins voru í árslok 253.209 milljarðar króna og jukust um 37% á árinu.

Eigið fé í árslok nam 16.213 milljónum króna og hefur dregist saman um 36.984 milljónir á árinu. Eiginfjárhlutfall er 8,3%.

Þá námu vaxtatekjur 33.684 milljónum króna og jukust um 159,2% frá fyrra ári. Vaxtagjöld námu 26.335 milljónum króna og jukust um 155,9% frá fyrra ári. Hreinar vaxtatekjur námu 7.349 milljónum króna samanborið við 2.703 milljónir árið 2007 og hafa því aukist um 171,9%.

Hreinar rekstrartekjur voru neikvæðar um 1.621 milljónir króna samanborið við 13.885 milljónir á árinu 2007 og hafa því lækkað um 111,7%. Rekstrargjöld námu 5.009 milljónum króna og jukust um 45% frá fyrra ári. Þá hækkaði launakostnaður um 51,2% og almennur rekstrarkostnaður hefur aukist um 40%.

Virðisrýrnun útlána, krafna og óefnislegra eigna nam 29.202 milljónum króna samanborið við 817 milljónir árið 2007. Afskriftarreikningur lána og krafna nam í árslok 2008 13,7% af útlánum og veittum ábyrgðum en var 1,5% í árslok 2007.