Hagnaður Byrs sparisjóðs eftir skatta nam 215,6 milljónum króna samanborið við 4.342,5 milljónir króna fyrstu sex mánuði ársins 2007.

Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu frá sparisjóðnum.

Þá kemur fram að fyrir skatta var afkoman neikvæð um 3.020,1 milljón króna samanborið við 5.203,8 milljónir króna hagnað fyrir sama tímabil 2007.

Vaxtatekjur námu 15.628,1 milljón króna og jukust um 210,3% frá sama tímabili árið 2007. Vaxtagjöld námu 11.199,2 milljónum króna og jukust um 167,6% miðað við sama tímabil síðasta árs.

Hreinar vaxtatekjur námu 4.428,9 milljónir króna samanborið við 852,5 milljónir króna fyrri hluta árs 2007 og hafa aukist um 419,5%.

Hreinar rekstrartekjur námu 924,9 milljónum króna samanborið við 6.687,9 milljónir króna fyrri hluta árs 2007 og hafa dregist saman um 86,2%.

Rekstrargjöld námu 2.168,3 milljónum króna og jukust um 63,2% frá sama tímabili árið 2007. Launakostnaður hækkaði um 99,4% en almennur rekstrarkostnaður hefur aukist um 38,1%.

Virðisrýrnun útlána nam 1.776,7 milljónum króna samanborið við 155,4 milljónum króna fyrri hluta árs 2007.

Afskriftarreikningur lána og krafna nam í lok júní 2008 2,4% af útlánum og veittum ábyrgðum en var 1,5% í árslok 2007 og 1,2% á miðju ári 2007.

Útlán til viðskiptavina námu 154.431,5 milljónum króna og jukust um 31,8% frá árslokum 2007. Innlán viðskiptamanna námu 93.526,5 milljónum króna og jukust um 33,4% frá árslokum 2007.

Eigið fé í lok júní 2008 nam 45.303,7 milljónum króna. Eiginfjárhlutfall samkvæmt reglum um fjármálafyrirtæki var 23,5% í lok tímabilsins.

Vaxtamunur tímabilsins var 2,9% samanborið við 1,6% fyrir sama tímabil árið 2007 og 1,9% fyrir allt árið 2007.

Heildarfjármagn í lok júní 2008 nam 226.183,7 milljónum króna og hefur aukist um 22,4% frá áramótum.