FME er heimilt að veita fjármálafyrirtæki sex mánaða frest vegna ákvæða um eiginfjárhlutfall og framlengja hann síðan einu sinni.

Í svari við fyrirspurn vegna eiginfjárstöðu Byrs segir FME að það líti svo á að Byr hafi verið á fresti í skilningi laga um fjármálafyrirtæki frá 8. júní í sumar.

FME hafi borist skýrsla um sundurliðun eigna og skulda Byrs í júní 2010 og um leið hafi verið farið í að vinna að samkomulagi milli aðila um uppgjör vegna ráðstöfunar eigna og skulda og rammasamkomulag hafi síðan verið undirritað 14. október 2010. Samkvæmt þeim verðmatsforsendum hafi Byr uppfyllt kröfur um 16% eiginfjárhlutfall.

Síðar eða um vorið 2011, þegar ársuppgjör Byrs var í vinnslu, hafi komið í ljós að bankinn myndi að óbreyttu ekki ná að uppfylla eiginfjárkröfu og í kjölfarið hafi Byr verið veittur frestur í júní.