Hlutabréfamarkaður var nokkuð líflegur í dag en heildarvelta á aðalmarkaði íslensku kauphallarinnar nam 5,7 milljörðum króna. Úrvalsvísitalan OMXI10 lækkaði um 1,33% í viðskiptum dagsins og stendur fyrir vikið í 3.272,78 stigum.

Bréf í Iceland er hækkuðu langt um meira en annarra félaga á markaði, um 6,58%. Gengi bréfanna var 1,62 krónur á hlut er markaðir lokuðu og hefur ekki verið hærra síðan 14. júlí síðastliðinn. Gengi bréfa Síldarvinnslunnar hækkaði næst mest, það er um 1,08%, og þá hækkaði gengi bréfa VÍS um 1,07%.

Gengi bréfa Iceland Seafood International lækkaði um 2,86% í viðskiptum dagsins, mest allra. Bréf Marel lækkuðu um 2,7% og þá lækkuðu bréf Festar um 1,82%.

Mest var velta með bréf Íslandsbanka í dag en viðskipti með bréfin námu 1,2 milljörðum króna og hækkaði gengi bréfanna um 0,33%. Næst mest var velta með bréf Icelandair, hverra viðskipti námu 956,1 milljón. Talsverð velta var jafnframt með bréf Arion banka en hún nam 643,7 milljónum króna.

Á First North markaði var töluverð velta með hlutabréf Play, en gengi bréfanna hækkaði um 1,49% í 301 milljónar króna viðskiptum. Gengi bréfanna stóð í 27,2 krónum á hlut í lok dags og hefur aldrei verið hærra. Gengi bréfanna hefur farið hækkandi frá 22. september þegar gengi bréfanna stóð í 20,5 krónum á hlut. Velta var lítil eða engin með önnur bréf á markaðinum.

Loks er vert að geta þess að fjör var á skuldabréfamarkaði í dag en heildarvelta með skráð bréf nam 10,4 milljörðum króna. Mest var velta með löng óverðtryggð ríkisskuldabréf á gjalddaga árið 2031, eða um 2,4 milljarðar króna. Þá nam velta með flokka óverðtryggðra ríkisskuldabréf á gjalddaga annars vegar árið 2028 og hins vegar árið 2025, 1,2 milljörðum króna hvor.