Íslendingur sem búsettur er erlendis og tók þátt í hlutafjárútboði TM á dögunum fékk þau skilaboð frá Landsbankanum eftir að útboði lauk að hann væri skráður sem erlendur aðili. Af þeim sökum þyrfti hann staðfestingu frá Seðlabankanum til að nota krónur sem hann á hér á landi. Gæti hann það ekki fengi hann bréfin endurgreidd. Greint er frá málinu í Morgunblaðinu í dag.

Í blaðinu segir að maðurinn hafi tekið þátt í útboðinu og ætlað að leysa út gengishagnað þegar Landsbankinn hafði samband við hann og sagt að hann gæti fengið bréfin endurgreidd eða gæti framvísað staðfestingu frá Seðlabankanum um að um nýfjárfestingu væri að ræða. Ef hann gæti það ekki þá mætti senda erlendan gjaldeyri til Íslands og kaupa bréfin með honum.

Morgunblaðið segir hóp fólks hafa verið í sömu stöðu.