Í desember síðstliðnum samþykkti stjórn Byrs sparisjóðs að framlengja yfirdráttarlán til félagsins Tæknisetur Arkea sem virðist hafa verið í sameignilegri eigu MP fjárfestingarbanka hf. og Exiter Holdings. Í yfirlýsingu þriggja stjórnarmanna Byrs  segir að hafi lánið verið notað til kaupa á stofnfjárbréfum í Byr hafi það verið í andstöðu við afgreiðslu lánsins.

Undir yfirlýsinguna skrifa Ágúst Már Ármann, Jóhanna Waagfjörð og Jón Kr. Sólnes.

Í yfirlýsingunni er eftirfarandi atburðarás rakin: Þann 19. desember 2008 var haldinn stjórnarfundur í Byr sparisjóði. Mættir voru m.a. Jón Þorsteinn Jónsson, þáverandi stjórnarformaður og stjórnarmennirnir Ágúst Már Ármann, Jóhanna Waagfjörð og Jón Kr. Sólnes varamaður. Jón Kristjánsson var fjarverandi. Á fundinum var m.a. til umfjöllunar yfirdráttarlán sem Byr sparisjóður hafði þegar veitt til handa Tæknisetur Arkea í eigu MP fjárfestingarbanka hf. Á fundinum var samþykkt að framlengja viðkomandi yfirdráttarlán til Tæknisetur Arkea í eigu MP fjárfestingarbanka hf. / Exiter Holdings um þrjá mánuði vegna óvissu á fjármálamörkuðum og auka heimildina til þess að mæta vaxtagreiðslum.

"Hafi andvirði lánsfjárheimildar að hluta eða í heild verið notað til kaupa á stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði, er slíkt í andstöðu við afgreiðslu málsins í stjórn Byrs sparisjóðs þann 19. desember 2008," segir í yfirlýsingunni. Þannig virðast framangreindir stjórnarmenn varpa ábyrgðinni yfir á stjórnendur MP Fjárfestingabanka sem heitir MP Banki í dag og eigendur Exiter sem er meðal annars Ágúst Sindri Karlsson lögmaður.

Í yfirlýsinguni er áréttað að: "Hafi stjórnarmenn Byrs sparisjóðs átt viðskipti með stofnfjárbréf í Byr sparisjóði án þess að tilkynna um slíkt til regluvarðar sparisjóðsins, er slíkt í andstöðu við lög um verðbréfaviðskipti að því er varðar skyldur stjórnarmanna sem fruminnherja."

Þetta mál er til skoðunar hjá Fjármálaeftirlitinu.