*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 14. janúar 2017 15:09

Byrja á að brjóta forsendur

Ný ríkisstjórn leggur af stað með því að brjóta forsendur kjarasamninga að sögn forseta ASÍ.

Trausti Hafliðason
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Haraldur Guðjónsson

Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), segir að stjórnarsáttmálinn sé að mörgu leyti mjög almennt orðaður. Hann furðar sig á því að eitt af fyrstu verkum ríkisstjórnarinnar verði að brjóta forsendur kjarasamninga.

„Að sumu leyti er erfitt að átta sig á beinum áformum þó ég kaupi alveg rök Benedikts Jóhannessonar fjármálaráðherra fyrir því að stundum hafi áformin verið svo þröng að ekkert svigrúm hafi verið fyrir samtal," segir Gylfi. Allar ríkisstjórnir verðskulda það að við leggjum af stað í samstarf.

Það sem mér finnst jákvætt snýr meðal að köflunum um almannatryggingar og menntamál. Þar er meðal annars talað um að taka verði upp starfsgetumat en það er eitthvað sem vinnumarkaðurinn hefur kallað eftir. Einnig finnst mér jákvætt að hér verði stefnt að því að taka upp námsstyrkjakerfi að norrænni fyrirmynd. Það er fullt af jákvæðum hlutum þarna."

Ekkert um félagslegan stöðugleika

Gylfi segir að ASÍ og BSRB hafi deilt við fyrri ríkisstjórn um hlutverkaskipan þjóðhagsráðs.

„Við gerðum kröfu um að það ríkti jafnræði milli efnahagslegs- og félagslegs stöðugleika. Við fengum fulltrúa allra flokka á fund daginn fyrir kosningar og það var samdóma álit þeirra allra að félagslegur stöðugleiki skipti miklu máli. Ég átti því von á því að stjórnarsáttmálinn myndi ávarpa þetta atriði og varpað yrði fram einhverjum hugmyndum um hvernig hægt væri að þoka því máli áfram en hugtakið félagslegur stöðugleiki finnst ekki í sáttmálanum. Það eru mikil vonbrigði."

Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði hvíla á þremur meginforsendum, sem koma til skoðunar núna í febrúar. Þá mun svokölluð forsendunefnd, sem skipuð er tveimur fulltrúum Samtaka atvinnulífsins og tveimur fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar, koma saman. Ein af forsendunum er hvort þær stjórnvaldsákvarðanir og lagabreytingar, sem heitið er og fram koma í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 29. maí 2015 hafi náð fram að ganga.

Gylfi segir að eitt af því sem komi til skoðunar sé loforð ríkisstjórnarinnar um úrbætur í húsnæðismálum.

„Það er ekki búið að fjármagna 600 íbúðir á ári í almenna íbúðakerfinu eins og lofað var. Forsætisráðherrann nýi hefur lýst því yfir að fjárlög verði ekki tekin upp þannig að ríkisstjórnin nýja er með öðrum orðum að leggja af stað með því að brjóta forsendur kjarasamninga."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.