Fyrsta stjórnarfrumvarp sem liggur fyrir sumarþingi varðar lækkun virðisaukaskatts á gistinætur. Verði frumvarpið að lögum mun fyrirhuguð hækkun virðisaukaskatts á útleigu hótel- og gistiherbergja (úr 7% í 14%) ekki verða að veruleika.

„ Ætla má að lægri virðisaukaskattur á gistiþjónustu hafi áhrif á eftirspurn og muni þannig gagnast ferðaþjónustunni við sitt markaðsstarf. Við mat á því hvernig skattleggja á greinina verður einnig að horfa til þess að meiri hluti gistinátta er enn sem komið er að sumarlagi sem óhjákvæmilega hefur ákveðið óhagræði í för með sér fyrir rekstraraðila. Verði frumvarpið að lögum lækka tekjur ríkissjóðs að óbreyttu um rúmlega 500 m.kr. frá áætlun fjárlaga fyrir árið 2013. Þá er einnig áætlað að árið 2014 og eftirleiðis muni tekjur ríkissjóðs verða um 1,5 milljörðum kr. lægri árlega en ella hefði orðið að óbreyttum lögum. Á móti því tekjutapi vegur, ef að líkum lætur, aukin eftirspurn og viðbótartekjur a.m.k. til lengri tíma litið,“ segir í skýringum með frumvarpinu.

Í umsögn skrifstofu opinberra fjármála um frumvarpið er bent á að ekki liggi fyrir aðrar ráðstafanir til að vega upp á móta þessari lækkun á áformaðri tekjuöflun ríkissjóðs. Því verði að gera ráð fyrir að afkoman versni að óbreyttu í sama mæli og þar með markmið um að ná jöfnuði í ríkisfjármálum og stöða skuldasöfnun ríkissjóðs.