„Þetta er svipað og maður hefði mátt eiga von á. Auðvitað vonaðist maður til þess að hægt væri að leysa þetta í bróðerni. Það virðist flest stefna í dómssali,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar aðspurður um viðbrögð hans við fréttatilkynningu forsvarsmanna Bergs Hugins. Þar kom fram að forsvarsmenn fyrirtækisins ætli ekki að verða við kröfu bæjarstjórans um að bærinn hafi forkaupsrétt á hlutabréfum fyrirtækisins.

„Núna tafarlaust byrjum við að undirbúa málssókn til ógildingar á sölunni. Þetta gerum við ekki síst til þess að láta reyna á fiskveiðistjórnunarlögin,“ segir Elliði sem spyr hvort í lögunum sé að finna þann öryggisventil sem hann telur löggjafann hafa ætlað sér við setningu laganna.

Hann segir að á meðan lögin kalli á túlkun þá sé greinilega eitthvað sem þurfi að skýra. Á sínum tíma hafi þetta ákvæði laganna verið fært inn til að vernda atvinnusvæði. Elliði segir að svo virðist sem útgerðirnar hafi með þessu fundið það sem þeir telji vera leið framhjá vilja löggjafans.

Elliði tekur fram að ekki standi til að Vestmannaeyjabær reki útgerð enda geti bærinn það ekki samkvæmt lögum. Hann segir bæinn samt sem áður hafa forkaupsrétt og ef hann yrði nýtturr myndi bærinn bjóða félagið til kaups hjá útgerðum innan Vestmannaeyjabæjar.