Húsasmiðjan gekk í gegnum erfiða tíma í kjölfar efnahagshrunsins og áramótin 2011/2012 var það keypt af danska fyrirtækinu Bygma Gruppen. Ári síðar tekur Árni Stefánsson við sem forstjóri fyrirtækisins og hefur afkoma fyrirtækisins batnað síðan þá í takt við vaxandi umsvif á byggingamarkaði. Árni segir útlitið á byggingamarkaði vera mjög gott og að eftir erfið ár sé staðan orðin gjörbreytt.

„Núna er byrjað að byggja af fullum krafti íbúðir aftur og mönnum gengur vel að selja þær,“ segir Árni. „Tölur sýna að það er mikil uppsöfnuð þörf fyrir íbúðahúsnæði þannig að menn eru ekki að byggja upp á von og óvon heldur er raunveruleg uppsöfnuð eftirspurn til staðar. Það er líka ánægjulegt að sjá að rekstur fyrirtækja í landinu er almennt farinn að ganga betur og fyrirtækin eru farin að fjárfesta aftur.

„Það er alltaf best þegar hlutirnir eru í jafnvægi og bæði fyrirtæki og einstaklingar sjái bættan hag. Einnig sjáum við að hið opinbera er aðeins farið að stíga meira inn aftur svo sem í virkjanaframkvæmdum og svo sjáum við stærri fjárfestingarverkefni eins og kísilverksmiðjurnar. Nú eru þrjú verkefni komin af stað og von til þess að stóra verkefnið í Hvalfirðinum gæti farið af stað undir lok ársins. Þetta er orðið gjörbreytt landslag miðað við það sem var síðustu ár. Það var erfitt að reka keðju byggingavöruverslana þegar það voru í kringum 200-300 íbúðir í byggingu á landinu öllu. Það er talað um jafnvægisástand þegar um 2.500 íbúðir eru í uppbyggingu.“

Nánar er rætt við Árna í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .