*

fimmtudagur, 6. maí 2021
Innlent 16. desember 2018 16:05

Byrjaði að forrita átta ára

Hjálmar Gíslason hefur náð mjög langt í hugbúnaðargeiranum, en bakgrunnur hans og starfsferill er afar áhugaverður.

Júlíus Þór Halldórsson
Hjálmar hætti hjá bandaríska stórfyrirtækinu Qlik í janúar og stofnaði GRID nú í haust.
Haraldur Guðjónsson

Þrátt fyrir að hafa náð langt í hugbúnaðargeiranum hefur Hjálmar Gíslason enga formlega menntun á því sviði. „Ég segi nú stundum í gríni að mín æðsta prófgráða sé bílprófið, en það er reyndar ekki alveg rétt því ég er með stúdentspróf frá Menntaskólanum að Laugarvatni. Eftir útskrift þaðan fór ég í tölvunarfræði, en ég byrjaði að forrita þegar ég var 8 ára. Tölvunarfræðin lá því frekar beint við.“ 

Sköpunargleðin og ævintýraþráin var ekki lengi að bera hinn unga námsmann ofurliði og Hjálmar stofnaði sitt fyrsta fyrirtæki með samnemendum sínum stuttu eftir að hann hóf námið. „Við vorum þarna nokkrir félagar, þrír í tölvunarfræði og einn í viðskiptafræði, sem entumst ekki nema fram að áramótum. Þá vorum við komnir með einhverjar pælingar sem við vildum fara með lengra. Þetta byrjaði frekar lítið og saklaust. Við vissum ekkert hvað við vorum að gera viðskiptalega, en ég held við höfum útfært þetta ágætlega tæknilega.“

Afraksturinn var „Leikjapakki Lon og Don“, næstmest seldi tölvuleikur landsins árið 1997. „Þrátt fyrir að kunna ekki neitt á viðskiptahliðinni gekk þetta bara rosalega vel og þetta kom inn hjá mér nokkrum hlutum, sérstaklega hvað það er rosalega gaman að búa eitthvað til og klára það alveg þangað til það er komið á markað. Það er í rauninni það sem drífur mig áfram, frekar en nokkuð annað, að maður sé í aðstöðu til að geta upphugsað einhvern hlut sem er ekki til, og farið síðan með hann alla leið og pakkað honum inn og komið honum í notkun. Það bara gefur mér mjög mikla fyllingu að gera svoleiðis. Þetta var svona í fyrsta sinn sem ég prófaði það.“

Fyrirtækið hét Lon og Don, en rann síðan saman við Gagarín, sem er ennþá starfandi. „Þá var dotcom-bólan komin vel af stað og var farin að nálgast hámarkið. Við runnum inn í Gagarín árið 1999. Í kjölfarið hætti ég þar og seldi minn hlut, og stofnaði fyrirtækið Maskínu með Guðjóni Má, sem oft er kenndur við Oz. Það sem við vorum að gera var markaðssetning í gegnum farsíma. Á tímabili var varla hægt að kaupa íspinna eða gosflösku öðruvísi en að það væru svona kóðar sem fólk gat sent inn og unnið einhverja vinninga. Þetta var allt keyrt á kerfum sem við smíðuðum. Við vorum að reyna að nota farsímatæknina mjög snemma til að ná þessu. Hins vegar héldum við að leiðin á markað með þetta væri að selja símafyrirtækjum þessa lausn. Það var mjög tímafrekt og við vorum bara ekki nærri nógu reynd til að vita hvernig ætti að standa í því. Þessu fyrirtæki lauk því þannig að við runnum saman við norskt fyrirtæki. Við fengum inn töluvert af fjárfestum, þar á meðal skandinavíska fjárfesta, og runnum loks saman við annað fyrirtæki og það átti sér síðan einhverja framtíð í Noregi sem ég fylgdist mjög lítið með þar sem ég hætti beint í kjölfarið.“

Óþrjótandi sköpunargleðin fylgdi honum svo í næstu verkefni. „Það vantar aldrei hugmyndir sko. Þegar maður er búinn að klára sig á einhverju verkefni og það er kominn á einhvern stað þar sem aðrir eru kannski farnir að stýra því meira hvert það er að fara og svoleiðis – ég skal alveg viðurkenna það – þá svona dvínar pínulítið áhuginn. Þegar þetta er bara orðið „business as usual“. Það sem mér finnst mest gaman er að búa til nýja hluti. Taka þá frá allra fyrstu stigum og á markað. Ég hef gert það nokkrum sinnum.“

Skýjabókamerki sem urðu að leitarvél
Eftir að Hjálmar hætti hjá Maskínu stofnaði hann fyrirtæki sem hét Spurl árið 2004. „Í dag væri þetta örugglega kallað „cloud-bookmarking“ þjónusta eða eitthvað svoleiðis. Bókamerki áttu bara heima í hverri tölvu fyrir sig hjá hverjum og einum. Ég setti upp þjónustu þar sem hægt var að geyma þau miðlægt. Þetta leysti ákveðna þörf sem ég hafði.“

Auk þess að halda miðlægt utan um bókamerki gerði lausnin fólki kleift að sýna öðrum sín bókamerki. „Ég setti þetta í loftið og ætlaði bara að leyfa einhverjum vinum mínum að nota þetta, en á einum mánuði voru 40 þúsund manns farnir að nota þetta, og á tveimur mánuðum 100 þúsund manns,“ segir Hjálmar.

„Við fórum í framhaldinu að velta því fyrir okkur hvernig hægt væri að koma þessu í verð, og komumst að þeirri niðurstöðu að leit væri málið. Þarna vorum við að fá upplýsingar um hvað fólk var að lesa, hvernig það flokkaði hlutina og hvað það var að segja um hlutina, sem leitarvélar komust ekki í. Á sama tíma er Síminn að búa til sjálfstætt fyrirtæki úr símaskránni, og vantar leitartækni. Við höfðum þá verið að leika okkur með það að leita á íslensku með því að aðlaga tæknina okkar að fallbeygingum og fleira. Það var eitthvað sem hentaði akkúrat fyrir það sem þau voru að reyna að gera.“

Hjálmar endaði því á að selja fyrirtækið sem leitartæknifyrirtæki fyrir íslenskan markað, sem varð að tæknideildinni hjá Já – Upplýsingaveitum sem reka meðal annars Já.is, og var í kjölfarið ráðinn forstöðumaður vöru- og viðskiptaþróunar hjá Símanum.

Hann hætti síðar hjá Símanum til að stofna DataMarket, sem var svo keypt af bandaríska stórfyrirtækinu Qlik, hvar hann vann áfram í rúm 3 ár, og hætti svo þar í ársbyrjun til að stofna sprotafyrirtækið GRID.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Hjálmar Gíslason DataMarket Qlik GRID