*

miðvikudagur, 26. febrúar 2020
Fólk 21. september 2019 19:01

Byrjaði að hjóla í sumar

Hallgrímur Björnsson er nýr fjármála- og rekstrarstjóri Lauf Cycling.

Höskuldur Marselíusarson
Sjöundi starfsmaður hjólanýsköpunarfyrirtækisins Lauf Cycling, Hallgrímur Björnsson, steig í fyrsta sinn að einhverju viti á hjól í sumar á flaggskipi fyrirtækisins og heillaðist af því að hjóla úti í náttúrunni.
Gígja Einarsdóttir

Það var auðvitað mikil breyting að vera nýbúinn að skilja við Eimskip sem er 1.800 manna fyrirtæki og verða starfsmaður númer sjö hér en hreinlega of spennandi til þess að segja nei við. Lauf Cycling er á mjög áhugaverðum stað, eftir að hafa farið á síðasta ári úr því að framleiða fyrst og fremst hjólagafla yfir í að framleiða okkar eigin hjól sem er auðvitað stórt skref að stíga en gengið vel og hjólin hafa fengið ótrúlega góðar móttökur," segir Hallgrímur Björnsson, nýr fjármála- og rekstrarstjóri Lauf Cycling, áður Lauf Forks.

„Það var mjög fyndið hvernig þetta kom eiginlega til því Benedikt Skúlason, annar stofnandinn, hringir í mig og við hittumst bara klukkutíma síðar því þau vantaði einhvern til að taka við fjármálum og daglegum rekstri fyrirtækisins. Hann er verkfræðingur og á að vera meira bak við tjöldin og hanna nýjar vörur, enda mikið að gera í því en ágústmánuður var söluhæsti mánuður fyrirtækisins frá upphafi."

Síðustu ár hefur Hallgrímur starfað hjá Eimskip, eða frá árinu 2016. „Þegar ég kláraði mastersnámið í Kaupmannahöfn þá var ég búinn að ráða mig í daglega fjárstýringu hjá Exista, en þetta var sumarið 2007 og eins og allir vita var það pínu klikkaður tími og ansi mikill rússibani," segir Hallgrímur. „Ég kem það seint heim úr náminu að í staðinn fyrir að taka þátt í öllu partýinu þá verður þetta meira svona eins og þynnkan daginn eftir. Eftir það var ég í Arion banka og síðan Straumi, en að fara þaðan til Eimskip var síðan frábært tækifæri til að starfa meira svona í raunhagkerfinu."

Hallgrímur er giftur Helgu Guðrúnu Vilmundardóttur og eiga þau þrjú börn, Þórhildi sem verður fimmtán í nóvember, Ara sem er að verða ellefu í apríl og Snorra sem verður sjö ára í desember. „Þetta er allt í excel-skjalinu sko, en maður reynir að eyða eins miklum tíma með fjölskyldunni og hægt er. Ferðalög eiga stóran sess í hjarta okkar, annars vegar þá klassíska útilegan á sumrin í íslenskri náttúru, skíðin á veturna og svo er Ítalía í miklu uppáhaldi með sína matar- og vínmenningu," segir Hallgrímur.

„Áhugamálið er laxveiði og þar stendur upp úr þegar við komum tengdaföður mínum á óvart með því að fagna 70 ára afmæli hans í Vatnsdalsá sem mig hafði dreymt um að veiða í frá því ég var 15 ára, en hann ólst upp þar í sveitinni og veiddi þar mikið í æsku. Síðan myndu vinnufélagarnir reiðast ef ég segi ekki hjól en ég byrjaði á því í fyrsta sinn í sumar af einhverju viti þegar ég eignaðist flaggskip Lauf, True Grip. Að hjóla á svona malarhjólum er ótrúlega skemmtilegt sport, því það hreinsar hugann og sameinar hreyfingu við að vera úti í náttúrunni."