Sigurður Viðarsson hefur starfað sem forstjóri TM frá árinu 2007 en verið viðloðinn tryggingabransanum frá því að hann var tvítugur. Að hans sögn eru tryggingaviðskipti honum í blóð borin og starfsemin, sem samtvinnast af tryggingum og fjárfestingum, finnist honum gríðarlega áhugaverð.

Hóf störf sem sumarstarfsmaður

„Ég hef í raun starfað við tryggingar alla mína tíð og í vor mun ég eiga 20 ára starfsafmæli í tryggingageiranum, þannig að ég hef gert lítið annað á starfsævinni. Ég hóf störf sem sumarstarfsmaður árið 1997, samhliða viðskiptafræðinámi, hjá líftryggingafélagi sem þá hét Alþjóða líftryggingafélagið en heitir í dag Okkar Líf og er að renna inn í Vörð. Ég starfaði fyrir félagið allt þar til ég tók við starfi forstjóra TM af Óskari Magnússyni árið 2007. TM er 60 ára gamalt fyrirtæki og það er ef til vill dæmigert fyrir þennanbransa, sem er mjög íhaldssamur, að það hafa aðeins starfað fjórir forstjórar hjá fyrirtækinu,“ rifjar Sigurður upp.

Hann segir algengt að fólk starfi lengi í tryggingabransanum enda sé um að ræða áhugaverðan starfsvettvang. „Þótt það hljómi kannski ekki þannig þá er þetta að mörgu leyti flókið svið sem tekur langan tíma til að koma sér inn í en maður er alltaf að læra nýja hluti og nærist einhvern veginn á þessu. Þetta er ekki alls ekki séríslenskur veruleiki enda eru flestir sem ég hitti erlendis með 20-30 ára reynslu í þessum bransa.“

Hvað olli því að þú heillaðist af tryggingabransanum?

„Hvað mig varðar þá er mér þetta að einhverju leyti í blóð borið. Afi minn átti Alþjóða líftryggingafélagið á sínum tíma og móðurbróðir minn varð síðar forstjóri í því félagi. Ég ólst upp við að heimsækja afa minn á skrifstofuna í tryggingafélaginu, fékk síðan sumarstarf hjá móðurbróður mínum og svo sogaðist maður bara inn í þetta. Þetta er mjög áhugaverð og fjölbreytt starfsemi enda allt í senn blanda af almennum rekstri og fjárfestingarfélagi.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.