Rúnar Pálmason var nýlega ráðinn upplýsingafulltrúi Landsbankans. en hann hóf störf hjá Landsbankanum í mars 2014 sem vefritstjóri. Fyrir það hafði hann starfað hjá Morgunblaðinu, m.a. sem vaktstjóri á fréttadeild, í um 14 ár. „Ég hafði verið á Morgunblaðinu frá árinu 2000 og var farinn að líta í kringum mig. Mig langaði svolítið að breyta til og ég hafði haft áhuga á framsetningu á vef. Þetta starf hjá Landsbankanum fannst mér mjög áhugavert.“

Hjólar í vinnuna allt árið

Utan vinnu æfir Rúnar langhlaup en hann er nýkominn heim úr víðavangshlaupi sem haldið var í Stokkhólmi sem heitir Lidingöloppet. „Ég hljóp þetta með konunni og góðum vinum, en þetta er um 30 kílómetra víðavangshlaup á eyjunni Lidingö í Stokkhólmi.

Auk þess stunda ég töluvert hjólreiðar, bæði á götuhjóli og fjallahjóli. Ég var í WOW cyclothon í júní. Ég fór líka í mjög góða ferð núna í lok sumars á fjallahjóli upp úr Eyjafirðinum og yfir í Fnjóskadal og til baka, en þetta var eitthvað í kringum 50-60 kílómetrar. Ég hjóla líka í vinnuna allt árið, ég er nýbúinn að setja nagladekkin á og tek þau undan þegar tíðarfarið er orðið nógu gott að vori.“

Á milli þess sem hann hjólar og hleypur þá reynir hann að nýta allan þann tíma sem hann getur með eiginkonunni og þremur börnum. Rúnar segir að eiginkonan hjóli og hlaupi með honum en börnin séu því miður enn of ung til að geta farið með þeim. Hann er þó byrjaður að þjálfa þau upp en 10 ára dóttir hans hljóp með honum 5 kílómetra í Sýrlandshlaupinu nýlega.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .