Samkeppni á rafbílamarkaði harnar sífellt. Nú hefur Concern Kalashnikov JSC, framleiðandi AK-47 hríðskotabyssunnar, bæst í hópinn rafbílaframleiðenda. Bíll Kalashnikov ber nafnið CV-1 og á að komast á 350 kílómetra á einni hleðslu að því er Bloomberg greinir frá . Hönnun bílsins er byggð á sovéska módelinu Izh-Kombi, sem var vinsælt fyrir austan járntjaldið á 8. áratugnum.

Ryksuguframleiðandinn Dyson tilkynnti í fyrra að hann stefndi á að koma rafbíl á göturnar árið 2020 og hyggðist fjárfesta fyrir milljarði punda, um 140 milljörðum króna til að ná því markmiði.

Sony hefur gefið í skyn að það hafi í hyggju að hefja framleiðslu farartækja. Þá stefnir kínverska félagið NIO á um 190 milljarða króna skráningu í Kauphöllinni í New York.