Bandaríski byssuframleiðandinn Colt hefur lýst sig gjaldþrota vegna gríðarlegra skulda. Fyrirtækið segist ætla að halda áfram venjulegri starfsemi á meðan það endurskipuleggur sig.

Colt skuldar meira en 350 milljónir dollara og þar að auki hefur salan á byssum fyrirtækisins hríðfallið. Spilar þar inn í að bandaríski herinn endurnýjaði ekki samning sinn við Colt um kaup á M4 rifflum árið 2013.

Undanfarna mánuði hefur róðurinn verið afar þungur fyrir Colt. Í nóvember síðastliðmum tók fyrirtækið 70 milljóna dollara lán hjá bankanum Morgan Stanley til að geta greitt vexti, en í síðasta mánuði gat fyrirtækið ekki staðið skil á 10 milljóna dollara vaxtagreiðslu.

Sala á rifflum og skambyssum féll um 30% á síðasta ári, en fyrirtækið er þekkt í Bandaríkjunum og hefur framleitt vopn í meira en 150 ár. Árið 1992 lýsti Colt sig einnig gjaldþrota en hóf störf á ný tveimur árum síðar.