Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um á dögunum þá hefur sprottið upp töluverð umræða um myndir af forsætisráðherraefni Pírata, Smára McCarthy þar sem hann sést handleika og beita byssum á ferðum sínum um Afganistan.

Þekkir Tim Lynch en segir hann ekki þjálfarann

Smári birti myndirnar upphaflega á facebook vegg sínum, en hann var á ferð í Afganistan á eigin vegum. Tekur hann fram í viðtali í Morgunblaðinu að hann hafi ekki verið þarna á vegum hjálparsamtaka, né heldur hafi hann fengið þjálfunina hjá manni að nafni Tim Lynch og fyrirtæki hans Free Range International.

Hins vegar hafi hann og fyrirtæki hans veitt Smára og ferðafélögum hans fría öryggisþjónustu á meðan á dvölinni í landinu stóð. Hún hafi þó ekki verið mikil.

Byssuleikur ekki markmiðið

„Markmiðið var ekki að vera í byssuleik þarna úti heldur var þetta tilfallandi,“ segir Smári í samtali við Morgunblaðið en neitar að nafngreina þann sem að þjálfuninni stóð.

„Það var maður hjá bandaríska hernum sem var að aðstoða okkur í frítíma sínum. Þetta var mjög lausleg þjálfun sem var bara smá inngangur.“

Notaði Kalashnikov

Segist Smári hafa skotið úr byssum af tegundinni Glock-17 og AK-47 en þó mest úr M-4.

AK-47 er rússnesk byssa, betur þekkt undir nafninu Kalashnikov, og er hún ekki notuð af bandaríska hernum, en er mjög vinsæl út um allan heim.