Rakel Þorbergsdóttir, nýr fréttastjóri RÚV, segist vera með ýmsar hugmyndir um það hvernig fréttastofan geti þróast og segir óhjákvæmilegt að með nýju fólki fylgi breytingar. Tilkynnt var í dag að Rakel myndi taka við starfi fréttastjóra af Óðni Jónssyni. Rakel hefur verið fréttamaður á RÚV í 14 ár. Aðrir sem komu til greina í stöðuna voru Svavar Halldórsson, Sigríður Hagalín Björnsdóttir og Ingólfur Bjarni Sigfússon.

„Það verður engin gerbylting á því sem við höfum verið að gera því ég held að við höfum verið að gera góða hluti. Við byggjum ofan á það og kannski breytum við eitthvað til. Það er allt eitthvað sem á eftir að koma í ljós og verður ekkert gert með hraði,“ segir Rakel.

Rétt áður en ákvörðun var tekin um að auglýsa stöður í framkvæmdastjórn RÚV var greint frá erfiðri rekstrarstöðu RÚV. Þar kom fram að fyrirtækið tapar milljón á dag. Rakel segist vonast til þess að það þýði ekki að það þurfi að koma til uppsagna. „Það er eitt af því sem verður að koma í ljós þegar framkvæmdastjórnin kemur saman. Eiginleg vinna hefst ekkert fyrr en eftir páska,“ segir Rakel. Hún ítrekar þó að hún vonist til þess að fréttastofan þurfi ekki að draga saman seglin.

Rakel hefur að undanförnu tekið þátt í að skipuleggja kosningavöku, en sveitastjórnarkosningar fara fram í lok maí. Heiðar Örn Sigurfinnsson fréttamaður mun stýra kosningasjónvarpinu. „Við sníðum okkur stakk eftir vexti í því. Við verðum kannski með nokkuð aðrar áherslur en áður en líka hefðbundið. Það er eitthvað sem verður kynnt fljótlega,“ segir Rakel.