Miklar breytingar hafa verið gerðar í millilandaflugi síðan Eyjafjallagosið olli mikilli röskun á alþjóðlegum flugsamgöngum í apríl árið 2010. Ekki hefur því verið gripið til sérstakrar viðbragðsáætlunar fari svo að gjósi í Bárðarbungu. Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir venjulegar viðbragðsáætlanir verði notaðar þegar truflun verður á flugi, svo sem vegna verkfalla eða eldgoss.

„Engin áætlun er komin í gang enda ekki ástæða til. Það er ekkert gos komið af stað,“ segir hann og bendir á að síðan gaus í Eyjafjallajökli hafi mælingar og rannsóknir skilað því að áhrif eldgosa á flugumferð yrðu vafalaust mun minni en þá.

„Það er ekki við því að búast að slíkt ástand í millilandaflugi af þessum sökum endurtaki sig,“ segir hann.