Vilhjálmur Egilsson, sem tekur við starfi rektors Háskólans á Bifröst í sumar, reiknar ekki með því að skólinn verði sameinaður Háskólanum í Reykjavík eins og stefnt var að fyrir nokkrum misserum. Þvert á móti býst hann við að skólinn verði áfram sjálfstæður.

Vilhjálmur segir í samtali við vikublaðið Skessuhorn sem kom út í dag að sem framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins hafi hann komið að því að búa svo um hnútana að fallið var frá sameiningaráformum háskólanna og að Háskólinn á Bifröst yrði rekinn áfram sem sjálfstæður skóli.

Hann segist hafa byrjað að horfa til Bifrastar fyrir nokkrum árum með það í huga að taka við skólanum.

„Þegar Ágúst Einarsson ákvað að hætta sem rekstor fyrir tæpum þremur árum hvatt hann mig til að taka við. Ég hugsaði mig vel um og þurfti að gefa honum góð svör eftir nokkra umhugsun við því hvers vegna ég lét ekki slag standa. Þá voru ákveðin verkefni í gangi á vettvangi SA sem ég vildi ljúka. Síðan bauðst tækifæri nú þegar Bryndís tilkynnti að hún hygðist hætta og ákvað ég því að sækja um,“ segir Vilhjálmur, sem ætlar að flytja með konu sinni til Bifrastar þegar hann tekur við rektorsstöðunni í sumar af Bryndísi Hlöðversdóttur.